Galdra-Snati & Bara-Snati

Á Þorláksmessu hittum við hundana Galdra-Snata og Bara-Snata. Þeir eru heimilishundar á bænum Miðhúsum hérna í Biskupstungunum. Miðhús eru einn af Hlíðarbæjunum, næsti bær við Úthlíð. Þar býr Þrúða apótekari og félagsmálafrömuður hér í sveit. Við þekkjumst í gegnum starfið í Skálholtskórnum, þar sem hún er formaður. Þrúða er gift Hallgrími frænda mínum Guðfinnssyni. Og það var hann sem galdraði fram skötuveislu á Þorláksmessu. Krakkarnir mínir voru alveg heillaðir af þessum nafngiftum á hundunum og eiga þess vegna aldrei eftir að gleyma Halla frænda sem á þessa hunda með skemmtilegu nöfnin.
Í gær heimsóttum við líka félaga minn úr kórnum. Við heimsóttum Sigrúnu á Engi. Það var verið að kaupa Apple tölvu á Engi og ég var að sýna Ingólfi bónda nokkur trix til að nýta sér tónlistarforritið Garage Band. Hann spilar á hljóðfæri og hefur gaman af grúski, þannig að hann á væntanlega eftir að gleyma sér annað slagið við nýja makkann.
Myndin er ekki af Miðhúsahundunum.