
Mugiboogie fær 5 stjörnur hjá Fréttablaðinu og 5 stjörnur hjá Mogganum. Þetta er líka mjög góð plata.
Ég var búinn að heyra megnið af henni í sumar þegar ég fór í stúdíóið í Súðavík og spilaði inn mandólíntrillur í eitt laganna á plötunni. Ég man ekki alveg hvaða lag það var, held að það hafi verið Sweetest Melody. Þær fengu svo ekki að vera með þegar búið var að gera lokamix, þannig að ég spila ekkert á þessari plötu. Það breytir því að hún er alveg mögnuð. Ætli maður reyni ekki að komast á eina af tónleikunum sem eru framundan hjá Mugison. Það er svo gott bandið sem hann er með. Ég verð að sjá það.
En áhugafólk um tónlist ætti ekki að láta þessa plötu fram hjá sér fara. Það er linkur á síðu Mugison hér á minni síðu. Þar er hægt að kaupa eintak. Þú færð niðurhalið strax og platan kemur svo til þín með pósti um leið og Muggi kemst á pósthúsið á Ísafirði til að senda þér hana. Blaðadómarnir eru líka á síðunni.
Björgvin vinur minn hringdi í mig um daginn til að biðja mig um að koma með sér á tónleika með Mugison. Hann hafði keypt sér plötu og varð bara að láta mig vita hvað hann var hrifinn af henni. Ég var fyrir vestan þegar hann hringdi. Sat við eldhúsborðið hjá pabba og mömmu og drakk kaffi og át rúnstykki úr Gamla bakaríinu. The Mugifamily var þarna öll með okkur svo ég rétti bara Ödda símann svo Bjöggi gæti þakkað fyrir sig milliliðalaust. Þetta var mjög fyndið. Þeir eru nú kunnugir Björgvin og Öddi. Því þegar við Björgvin vorum saman í Kennó spiluðum við stundum saman á gítarana og sungum. Við vorum að semja músík, en lika að skemmta, mest í skólanum. Þá var Öddi yfirleitt fenginn til að vera hljóðmaður og rótari. Hann átti heima þarna í nágrenni við skólann og var með hljómsveit sem æfði í bílskúrnum. Það var því létt að fá lánaða magnara og snúrur hjá honum og hann var alltaf til í að aðstoða frænda sinn.