Í takt við tímann?
Í mínu sveitarfélagi er ekkert verið að ganga frá götum eða steypa gangstéttar. Opin svæði eru brún af drullu og grá af ryki. Í þokkabót er skiulag lagnamála með þeim hætti, eins og víða annars staðar, að hvert fyrirtæki og hver stofnun sem koma vill kapal eða röri ofan í jörð, grefur til þess skurð. Gatan sem ég bý við hefur verið grafin upp 5 eða 6 sinnum á þremur árum.
Í þurrkatíð þarf að skola ryki úr fötum og sópa því af gólfum, hillum og borðum. Í vætutíð eru baðherbergið, þvottahúsið og bílskúrinn undirlögð af fatnaði sem ýmist er verið að skola drulluna úr eða hanga þar til þerris.
Í litlu botnlangagötunni sem ég bjó við í Víkinni var lengi beðið eftir malbiki og gangstétt. Svoleiðis framkvæmdir höfðu víða verið gerðar um bæinn áður en kom að Holtastígnum. En þar voru steyptar gangstéttar og gatan malbikuð sumarið sem HM í fótbolta var haldið á Spáni. Það var árið 1982. Það eru 25 ár síðan. Í Biskupstungum líður mér stundum eins og ég sé kominn aftur til fortíðar.
Hringur minn og vinur hans, Alex Bjarni, eru duglegir að leika sér úti. Hér eru myndir af þeim.



