Norah í Höllinni

Norah Jones heldur tónleika í Höllinni í kvöld. Ég hafði ætlað mér á þessa tónleika en var of seinn að tryggja mér miða. Það var orðið uppselt svo fljótt. Norah og félagar hennar í The Handsome Band kveiktu áhuga minn á country tónlist. Ég hafði yfirleitt litið á þetta sem það allra hallærislegasta af öllu hallærislegu. En það er með þessa tónlist eins og alla aðra tónlist að þeir sem flytja hana þurfa að vanda sig eins mikið við þann flutning og flutning allrar annarrar tónlistar. Og þetta fólk kann til verka. Ég sá tónleika í sjónvarpinu með Noruh og bandinu hennar og heillaðist af færni þeirra og nálgun. Þetta eru allt frábærir hljóðfæraleikarar og útsetningar þeirra eru oft algrjörlega brilljant. Ekki yfirhlaðnar og ekki leiðinlegar. Bara akkúrat eins og hæfir hverju lagi. Og síðan er ég farinn að gefa countymúsík séns og fíla bara margt af því. Mér finnst mjög gaman að spila country.
Á síðasta ári lék ég inn á plötu, tók upp og útsetti, í félagi við annan mann, eitt lag eftir Noruh. Það var lagið Sunrise. Margt tókum við nú beint úr útsetningu The handsome band en sumt gerðum við öðruvísi. Síðastliðinn vetur lék ég svo með hljómsveit útsetningu eftir Noruh Jones á lagi eftir Dolly Parton. Það var mjög skemmtilegt.
Ég óska ykkur sem farið á þessa tónleika í kvöld góðrar skemmtunar.