Kamilla (minningarkvæði)

Var að leita að nótum sem Gréta var búin að troða í plastpoka og svo inn í skápinn minn. Fann þær - en líka glósur frá námskeiði sem ég sótti til Bergen um árið. Þar var ég þegar páfagauknum á heimilinu fannst honum ógnað af ryksugustútnum og lagði til atlögu sem endaði með dauða hans sjálfs. Ég fékk tíðindi af atburðunum símleiðis. Sat þá á gamalli Krá í hansakaupmannshúsi ásamt Sæmundi nokkrum Helgasyni, Björgvini vini mínum og Kristínu sem var fararstjóri íslensku kennaranna á námskeiðinu. Gréta og Hákon minn skældu bæði, en Sæmundur og Bjöggi hlógu svo mikið að það lá við að kalla þyrfti á sjúkrabíl. Páfagaukurinn sem við kölluðum Kamillu, var lagður í frysti og síðar var hann fluttur til Bolungavíkur þar sem hann var grafinn. Og í glósunum leyndist kveðskapur.
Mér sýnist á þessu að ég hafi látið mér fátt um finnast. Bara notið stundarinnar þarna á kránni.
Undir mildum og notalegum áhrifunum af bergenska Hansabjórnum urðu til þessar limrur.
Ákaft í þorpsölið þyrsti
þegar ég Kamillu missti.
Í angist og sorg
í útlendri borg
þegar fuglinn var lagður í frysti.
Slíkt bögg er í Bergen til vansa
svo ég bæti á mig yndælum Hansa
og ég fíla það flott
og mér finnst það svo gott
að bráðum ég byrja að dansa.