Rokkbændur
Þegar ég var á rétt skriðinn á táningsaldurinn vorum við Halli vinur minn Pé, og sundum aðrir gæjar með okkur, mikið í að heimsækja vinkonur okkur í barnapíustétt, þar sem þær voru að störfum. Þetta voru stelpur eins og Jenný, Björg Hildur, Ragnhildur frænka mín og Imba. En langduglegastir vorum við að heimsækja nágranna okkar, Hildi Kristínu. Þær voru nú alltaf a.m.k. tvær saman um hvert djobb. Við vorum nú ekkert í neinum feluleik með þessar heimsóknir okkar. Við læddumst ekkert inn til þeirra í skjóli myrkurs. Það var skemmtilegast að vera mættur áður en fólkið á bænum fór á ballið. Spjalla svolítið við mannskapinn. Satt að segja hófst persónulegur kunningsskapur minn og gagnkvæm vinsemd við suma þá Bolvíkinga sem eru þetta aðeins eldri en ég sjálfur einmitt þannig.
Þessir tímar rifjuðust upp fyrir mér áðan þegar ég sá forsíðu nýjasta BB (héraðsfréttablað Vestfirðinga). Þar var nefnilega mynd af Önfirðingnum Árna á Vöðlum. Árni var í hljómsveit á þessum árum sem hét Rokkbændur. Með honum í þeirri hljómsveit var Birkir í Hrauni, móðurbróðir Hildar Kristínar. Og þegar þeir léku á dansleikjum í Víkinni gerðu þeir sig gjarnarn klára í spileríið á Holtastígnum heima hjá Hildi. Ég man hvað ég leit upp til þeirra og fannst mikils til þess koma að þeir væru að fara að skemmta á dansleik - var að sjálfsögðu farinn að stefna að því þá að gera þetta einhverntíma sjálfur. Ég man samt aldrei eftir því að hafa talað neitt við Árna. Það var nú þannig að hann þurfti nú ekki mikið að opna munninn þar sem þeir fóru félagarnir því Birkir lokaði helst aldrei sínum og þótti skemmtilegt að gantast við okkur púkana.