Leikskólagjöldin

Ég sit yfir gjaldskrám leikskóla hinna ýmsu sveitarfélaga og ber þær saman. Sá samanburður virðist ætla að verða sjálfum mér í óhag. Það er gríðarlegur munur á lægsta verðinu sem ég hef fundið og því hæsta. Ég hef ekki enn fundið neitt hærra en hér í sveitasælunni í Biskupstungum. Það stefnir í klögur og kannski greinaskrif. Ég hef aldrei leitt hugann að þessu fyrr. Launanefnd sveitarfélaga hefur lagt svo ríka áherslu á að borga okkur kennurum öllum sömu laun, hvar sem þeir eru í sveit settir. Svo ég hélt jafnvel að sveitarfélögin hefðu samræmda gjaldskrá fyrir leikskóla. En það er nú aldeils ekki raunin.
Eins og staðan er í þessari samanburðarrannsókn minni þessa stundina er gjaldið sem ég greiði fyrir tvö börn hér meira en tvöfalt ódýrasta gjaldið. Og það verð sker sig engan veginn úr, er bara fáeinum krónum lægra en verðið hjá nokkrum öðrum sveitarfélögum. Kópavogur, Hafnarfjörður, Ranárþingi ytra og Bolungavík koma best út. (Þið Bolvíkingar getið unað vel við ykkar gjaldskrá.) Akranes og Borgarbyggð eru í hærri kantinum. Ég er svona að spá í hvort ég eigi að vera það kvikindi að setja Súðavík í samanburðarhópinn. Þar er ekkert leikskólagjald.