Útvarpsviðtal við Megas
Dr. Gunni var að hvetja lesendur bloggsíðu sinnar til að hlusta á viðtal Freys Eyjólfssonar við Megas sem var á dagskrá Síðdegisútvarpsins á Rás 2 í gær, þriðjudag. Það gerði ég. Viðtalið er átakanlegt fyrir Frey. Megas lætur hann hafa fyrir þessu.
Sá gamli er á stundum bitur út í nokkra einstaklinga í Útvarpinu og virðist ætla að taka það út á öllu liðinu sem þar starfar. Einu sinni var ég á æfingu með honum þar sem hann lék á alls oddi; sagði sögur og brandara, sagði kórstúlkunum til í söng og framburði gamalla orða sem þær ekki þekktu, Settist við flygil og spilaði fyrir þátttakendur æfingarinnar, var bæði glaður og skemmtilegur. Á æfinguna hafði verið boðaður Haukur Hauksson frá morgunútvarpi Ríkisútvarpsins. Á meðan á þessu stóð var hann þarna úti í horni að taka viðtal við gömlu Þeysarana, en þannig vildi til að þeir voru allir saman komnir í þessari hljómsveit sem þarna æfði. Því næst ætlaði hann að taka viðtal við Megas, en þá brá svo við að Megas sýndi Hauki ekkert af þessari þægilegu og kurteisu framkomu, skemmtilegheitum og kæti, sem hann hafði sýnt af sér aðeins fáeinum mínútum fyrr. Hann var bæði leiðinlegur og fúll við útvarpsmanninn og lét svo greinilega í veðri vaka að hann væri að trufla æfinguna. Aumingja Haukur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og fékk ekkert af viti út úr tónskáldinu. Ég heyrði svo aldrei hvernig hann vann umfjöllun sína úr þessu. Það hefur eflaust verið vel gert, en erfitt hefur það verið. Svo mikið er víst.
Svona lét Megas við Frey í gær. Hann sneri út úr öllu sem hann sagði, þóttist ekki skilja spurningar hans og reyndi að slá hann út af laginu. Þar fyrir utan var hann greinilega undir áhrifum. Mér fannst Freyr bara komast ágætlega frá þessari erfiðu raun.
Þið sem nennið getið hlustað á þetta á Netinu á www.ruv.is.