Vilborg á vellinum
Þegar ég var að kenna á Skaganum fylgdist ég mjög vel með gangi mála í fótboltanum hjá meistaraflokki karla þar í bæ. Ég mætti á langflesta leiki, talaði mikið um fótbolta við vinnufélaga mína, las það sem fjölmiðlarnir skrifuðu um leikina, heimsótti heimasíðu klúbbsins og skrifaði meira að segja pistla þar. Pistlarnir voru skrifaðir undir nafninu Vilborg. Ég var sem sagt það sem nú kallast að vera moldvarpa í netheimum, þ.e. annar en ég þóttist vera. Vilborg var alla jafna jákvæður og bjartsýnn stuðningsmaður ÍA-liðsins. Hún var einn örfárra stuðningsmanna liðsins sem hafði tröllatrú á Danna frænda mínum og stóð alltaf með honum. Hann sagði mér af því að stundum hefðu verið miklar pælingar meðal liðsmannanna hver hún væri þessi Vilborg sem skrifaði aldrei neitt ljótt um þá eða leik þeirra en hvatti þá þeim mun meira til dáða. En það komst aldrei upp. Einu sinni var ég beðinn af klúbbnum og umsjónarmönnum heimasíðunnar til að fara með liðinu í bikarleik til Seyðisfjarðar. Þetta gerði ég og þá skrifaði ég bæði um leikinn og um ferðalagið sjálft. Báðir pistlarnir birtust á síðunni og ég beitti nákvæmlega sömu stílbrögðum og Vilborg hafði alltaf notað. Samt komst ekki upp um mig. Ég var nú alveg undir það búinn. Þetta leyndarmál upplýsist hér með.
Mér fannst þetta skemmilegur leikur. Það var mjög gaman að fara á völlinn og að skrifa svo um leikinn eftir á var bara skemmilegt. Auðvitað er þetta mjög fáránleg hegðun. Mér fannst það og finnst það enn. En hún er ekki hættuleg og bara til gleði. Maður hefur gott af því að skrifa texta. Það þjálfar mann í að koma orðum að hugsunum manns. Jafnvel þótt þær snúist ekki um neitt flóknara en stráka í fótboltaleik. Þetta var að mestu fyrir daga bloggsins. Kannski þessi bloggárátta sé bara einhverskonar framhald af þessu. Ég ætti kannski að loka þessu bloggi og stofna nýtt fyrir hönd knattspyrnuáhugakonunnar Vilborgar. Það yrði forvitnilegt að fylgjast með lífi hennar.
Vilborg hefur ekki skrifað um fótboltaleiki síðan ég flutti frá Akranesi sumarið 2004. En alveg fram að því hafði hún skrifað pistil um hvern einasta heimaleik. Nú sé ég aldrei leik. En í sumar ætla ég einhverntíma á völlinn með Hákoni mínum. Það væri gaman að sjá ÍA eða bara Danna frænda, hvaða liði sem hann mun leika með.