Leikmenn umferða 2 og 3 - en engin tengsl
Leikmaður 2. umferðar mun hafa verið markvörður Víkinga, Bjarni Þórður Halldórsson. Ég veit ekkert hver hann er. En ég fletti honum upp í Íslendingabók og sá að við erum sjömenningar. Það er nú ekki mikill skyldleiki. Ég get sem sagt ekki, svona án fyrirhafnar, tengt þann mann við Víkina eða Víkara.
Leikmaður 3. umferðar er Helgi Sigurðsson í Val. Hann þekki ég ekki heldur og hann er ekkert skyldur mér. En sá leikmaður er það nærri mér í aldri að ég man vel eftir því þegar hann var að stíga fyrstu skrefin í efstu deild. Og það upphaf á hans ferli get ég tengt Bolungavík, þótt langsótt séu nú tengslin. Þannig var að árið 1992 vorum við strákarnir í knattspyrnuliði UMFB í keppnisferð fyrir sunnan. Og til að spara voru leiknir tveir leikir í sömu ferðinni. Sá fyrri var leikinn í Reykjavík á laugardegi en seinni leikurinn á Snæfellsnesi á sunnudegi. Það var farið með rútu eftir leik á laugardegi vestur á Nes. Sama dag lék Víkingur við ÍA á Akranesi. Þá skoraði Helgi Sigurðsson fyrstu mörkin sín í deildinni. Í hamborgarastoppi í Þyrli í Hvalfirði mætast þessi tvö fótboltalið, UMFB og Víkingur. Þar sáum við Víkarar þennan unga og upprennandi markaskorara í Víkingi. Einu sinni ók ég kunningja mínum, fótboltaspilara af Akranesi, úr Akraborginni og heim til Helga Sig í The Small Apartment Area í Reykjavík!