Halli melló syngur í útvarpið
Á Rás 1 í gær var Lísa Páls að tala við útskriftarnemendur úr Leiklistardeild Listaháskólans. Á eftir þessu spjalli var leikið lag úr leikritinu sem er útskriftarverkefni þessara nemenda. Þetta er nýtt leikrit eftir Þorvald Þorsteinsson með nýrri tónlist eftir Megas. Lagið sem var spilað í útvarpinu er algjört æði. Melódían virkilega lífleg og spannar vítt svið, textinn beittur og um leið rómantískur og bráðskemmtilegur. Flutningurinn er líka svo flottur. Lagið er sérstaklega vel sungið. Ég heyrði strax á fyrsta tóni að það er Hallgrímur Ólafsson, Hallli melló, sem syngur. Sá hefur tekið stórstígum framförum í söngnum! Ekki það að mér hafi fundist hann eitthvað slappur fyrir. En þetta er allt annar og betri söngvari en ég þekkti á Skaganum á sínum tíma. Hann hefur greinilega nýtt sér þá leiðsögn í söng sem honum hefur staðið til boða í leiklistarnáminu. Þetta er svo vel gert hjá honum að ég tel líklegt að mikið muni bera á söng Halla á næstu árum.
Ég myndi tippa á að Halli sé fyrir löngu hættur að reykja. Mér finnst ég heyra það á rödd hans. Hæsið sem er á rödd hans er orðið eðlilegt og er bara svona hlýr effekt á hana. Áður var þetta það sem mest bar á þegar Halli söng.
Það er linkur á þáttinn í fyrirsögninni.