Dóra

Í barnatímanum á Stöð 2 er stundum sýndur þáttur sem heitir Dóra (Dora the explorer). Fyrir þá sem ekki eiga börn hlýtur þessi þáttur að vera alveg glataður því þar er gert ráð fyrir að börnin sem horfa séu þátttakendur í leiknum. Það lítur óneitanlega hálfkjánalega út að þátturinn geri ráð fyrir þessu en svo horfi börnin bara passív á þetta og skilji ekki til hvers er verið að ætlast af þeim eða hvort til einhvers sé ætlast af þeim yfirleitt. En þannig er þetta alls ekki.
Hér heima hjá mér er þetta langvinsælasta barnaefnið og litlu börnin mín tvö taka fullan þátt í leiknum. Þau hrópa og kalla til að hjálpa Dóru að finna það sem hana vantar, vísa henni veginn, hjálpa henni að rata, ná í töskuna hennar góðu og til þess að forða henni frá óvininum Nappa ref. Stundum eru börnunun kennd orð og setningar á ensku. Það virkar meira að segja. Þetta er virkilega vel gerður þáttur og yfirleitt frekar skemmtilegur.
Ég hef heyrt að þátturinn sé ekki bara vinsæll á þessu heimili heldur kunni börn yfir leitt vel að meta hann.
Til gamans get ég þess að gamall kunningi minn af Skaganum og eftirmaður minn í trúbadorabransanum þar, Halli melló, er einn þeirra leikara sem lesa inn textann.