Sjónvarpsgláp

Síðasta kynningarkvöldið á júróvísjónlögunum var í gær. Eitt lagið stóð algjörlega upp úr að mínu mati. Það var lag Dr. Gunna og Heiðu, Ég og heilinn minn. Mér finnst það flott lag og svo voru hreyfingarnar hjá bakraddasöngvurunum svo skemmtilega púkó. Matti og Pétur Örn eru greinilega vanari að standa á sviðinu en á dansgólfinu. Ég held með þessu lagi. Ég hélt líka með Heiðu þegar hún tók þátt með lagið Tangó. Þessa mynd tók ég af bloggi doktorsins.
Ég horfði líka á blúsþátt Jóns Ólafssonar. Nú af því ég spila á munnhörpu fylgdist ég sérstaklega með munnhörpuspilinu. Það verður að skoða svona sjónvarpsþátt vel og reyna að læra af því sem þar er gert og sjá hvar maður stendur sjálfur í samanburði við aðra munnhörpuleikara. Mér líður nú bara vel með það (þetta varð að koma!).
Spaugstofan fannst mér aftur ná gamalkunnum lægðum. Óhemjuslappt grínið í gær. Einn brandarinn var mér reyndar að skapi. Hann var líka vel útfærður. Það var barnaþátturinn Hvar er Geir?