Oddur Nordstoga

Ég heyrði fyrst um Odd Nordstoga í þættinum Norrænt á sem Guðni Rúnar Agnarsson, bróðir hans Hilmars Arnar, hefur séð um á Rás eitt í mörg mörg ár. Svo keypti ég mér plötuna sem hann sló í gegn með í Noregi þegar ég var þar á námskeiði fyrir rúmu ári. Þetta er frábær plata, heitir Luring. Nú er komin ný plata. Ég finn hana ekki á Íslandi og vefverslanir sem versla með plötur í Noregi vilja ekki senda plöturnar úr landi. Ég hafði því bara uppi á umboðsmanni gæjans og bað um að mér yrði send plata til Íslands. Ég lofaði í leiðinni að spila músíkina hans út um allt land. Ég fékk svar alveg eins og skot. Umbinn hafði verið á Íslandi með öðrum listamanni sem hann hefur einnig á sínum snærum, sjálfa Sissel. Hann lofaði að senda mér plötu.
Það þarf náttúrulega varla að taka það fram að ég bíð enn og geri mér satt best að segja ekki miklar vonir um að diskurinn komi til mín með þessum leiðum.
Skoðið endilega þetta fréttaskot frá Verdens gang, viðtal og tóndæmi frá Oddi. Þetta er flottur gæi, venjulegar lagasmíðar útsettar í kántrí- og þjóðlagastíl með munnhörpu og banjóum, Harðangursfiðlum og fleiru fíneríi.