Gömul hús í Bolungavík (frh.#2)

Einarshúsið er verið að hressa upp á - það á sér merkilega sögu - þótt það sé í sjálfu sér ekki mjög gamalt. Vonandi fær það nýjan svip og mun standa.
Þegar ég var strákur var þetta hús verbúð og afgreiðsluhús veiðarfæra. Í þeirri afgreiðslu man ég fyrst eftir Nonna, afa Ninnu, Lalla og Guðnýjar á Miðdal. Svo var Dóri Leifa þarna og tók ekki bara Siggi Leifa við af honum? Í verbúðinni man ég eftir Gunnari Hauki og Bjössa prestsins. Þeir fluttu úr Víkinni með foreldrum sínum á svipuðum tíma. En þeir komu svo sjálfir í mörg sumur til að vinna. Hörkuduglegir strákar í saltfiski hjá Geir.
Svo man ég eftir sumrinu þegar Haukur Vagns flutti heila hljómsveit (og einhverjar skvísur!) með sér vestur og hún gerði út frá þessu húsi. Allir meðlimirnir unnu í fiski, bjuggu og æfðu í Einarshúsinu og spiluðu svo um helgar. Þetta var hljómsveitin M.A.O. Þetta hefur líklega verið 1987. Ég var ekki farinn að fara á böllin, en fannst tónlistarmennirnir mjög forvitnilegir gæjar. Í þessum hópi var Friðrik Sturluson, sem seinna spilaði með Sálinni, eins og hann gerir enn, og Ástvaldur Traustason í Bardukka þjóðlagasveitinni og Milljónamæringunum til margra ára og núverandi skólastjóri tónlistarskóla í Reykjavík.
Pétur Pé vinur minn hafði herbergi í Einarshúsinu sumarið 1991. Þangað kom ég stöku sinnum. Síðast kom ég inn í þetta hús þegar við fótboltamenn fengum það undir partíhald eftir að grasvöllurinn var vígður 1996.
Nú er búið að setja pöbb í kjallarann á þessu húsi. Þangað hef ég ekki komið, - ekki enn.