Opið
Frændi minn einn, afbragðssnjall náungi og rúmlega vel ritfær, vakti mig til umhugsunar um ljótt orðaval í ákveðnu sambandi. Hann skrifar fréttir og tilkynningar á eina af uppáhaldsvefsíðunum mínum. Hann les þetta örugglega og ég vona að hann geri bragarbót á nýlegri færslu.
Fyrir nokkrum árum fóru verslunarmenn að troða ambögunni „opnunartími" í tungumálið, í þeirri merkingu að það væri sá tími sem verslunin væri opin. Málverndunarsinnar bentu þá þegar á að nær væri að nota orðið „afgreiðslutími" í staðinn, því opnunartími væri í raun annaðhvort sá tími dagsins þegar dyrnar eru opnaðar, t.d. „Opnunartíminn er klukkan 10:00", eða sá tími sem það tekur að opna dyrnar; „Opnunartíminn í morgun var 5,17 sekúndur". Á þetta var m.a. bent á mjólkurfernu fyrir svona 12 árum. Ég hef oft skipt mér af þessari orðanotkun og oft hefur verið tekið mark mér og auglýsingar verið bættar til hins betra.
Þá stendur ýmist eitthvað á þessa leið:
„Afreiðslutími er virka daga milli 12:00 og 17:00".
„Opið virka daga milli 12:00 og 17:00".
Eða:
„Opið sem hér segir: Virka daga milli 12:00 og 17:00".
Hafið þetta í huga.