Rauða húsið og Grandarinn
Fínir tónleikar hjá okkur í gærkvöldi á Eyrarbakka. Troðfullt hús (það er reyndar ekki stórt) og góð stemmning. Fyrst lék þýska tríóið Zimt spænskættaða gyðingatónlist. Þar er sama söngkonan og hjá okkur í hinni hljómsveitinni. Að auki eru í Zimt Olaf ásláttarleikari og Kristin sem leikur á nylonstrengjagítar. Kristín er alveg ævintýralega fær gítarleikari. Á eftir tríóinu stigum við í Kol isha á svið. Við lékum hressa Svartahafsdansa og balkanskar brúðkaupsvísur. Síðast var svo Hjörtur, prímusmótorinn sjálfur, með unglingahljómsveit sem hann er að þjálfa upp. Þetta eru nemendur hans og hann hefru verið að taka þá í aukatíma í frístundum sínum og kenna þeim gyðingasálma og nútíma-klezmer í rokkaðri gerðinni. Það var mjög gaman að hlusta á þá.
Grand rokk í kvöld. Ég hvet alla sem vantar eitthvað skemmtilegt að gera í kvöld til að koma og hlusta.
Ég verð í allan dag að æfa aðra tónlist í Reykjavík. Það er maraþonkóræfing í Grafarvogskirkju vegna frumflutningsins á messunni hans Gunnars Þórðarsonar. Þannig að það er nóg að gera í músíkinni þessa dagana.