Gyðingabandið
Nú er nýtt spilverk í gangi. Mér var boðið að vera með í bandi sem ætlar að spila undir hjá þýskri söngkonu sem stödd er á landinu. Hún heitir Inga og syngur með afar sérstökum hætti. Hún syngur klezmer-tónlist eða gyðingatónlist. Það verða þrennir tónleikar í næstu viku; í Skálholtskirkju, í Húsinu á Eyrabakka og á Grand Rokk í Reykjavík. Ég spila á mandólín, en í bandinu er líka leikið á kontrabassa, harmoníum, slagverk, klarinett, þverflautu, gítar og melódiku. Eða ég held það. Einn í hópnum er verri en ég hvað varðar delluna að spila á mörg hljóðfæri að ég get ekki verið viss um hvernig endanleg útkoma verður; á hvað hann mun spila og hverju hann sleppir. Það er hann Hjörtur sem ég hef skrifað um hérna áður. Hann er gríðarlega áhugasamur um þessa tegund tónlistar.
Á efnisskránni eru t.a.m. lögin: Ani Mamin, Kadish, Makh Tsu Di Eygelekh, Tsi Darf Es Azoy Zayn, Yoshke Fort Avek, Geizele Yash, Neshumele, Awreml der Marwicher, Sapozhkelekh, Zhankoye og Sholem Zol Zhagn. En þetta eru náttúrulega lög sem flestir þekkja.