Ukulele, skák og hljómsveitin Net
Hákon er að rúlla þessu upp. Spilar og syngur upphafslínuna á Bítlalaginu Something, sem ég hef einmitt lesið einhversstaðar um að George hafi samið á ukulele! Fingurnir eru litlir og þvælast stöku sinnum fyrir, en ég finn það strax að það verður ekki erfitt að kenna Hákoni nokkur grip og mér finnst eins og hann hafi tilfinninguna fyrir því hvenær hann eigi að mynda nýjan hljóm.
Hann er svo klár drengurinn minn. Ég kenndi honum mannganginn í skák fyrir ári síðan. Við höfum mjög lítið gert af því síðan þá að rifja upp taflmennskuna. Núna er áhuginn aftur vakinn því að í tölvunni er skákforrit. Og tölvan vinnur alltaf. En Hákon er orðinn svo klár í að valda menn og í að leika ekki af sér að ég (sem get reyndar ekkert í skák) get þurft langan tíma í að máta hann.
Eiríkur hennar Finnu og Gumma Simm var í Popppunkti áðan að keppa með liði bókagagnrýnenda í popp- og rokkfræðum. Hann sagðist hafa verið í 2 bílskúrsböndum. Ég man eftir honum í kjallaranum hjá Magga og Bella á Traðarstígnum þar sem hann spilaði á orgel í hljómsveitinni Net. Annars flutti Eiríkur flottan pistil á Rás 1 um lífið í Bolungavík um daginn. Um móralinn í plássinu og viðhorf fólksins til vinnu, menntunar og peninga. Þar hefur margt breyst til betri vegar á síðustu árum þótt annað hafi versnað.
Kv.
Kalli Bolvíkingur