Tilraunavefurinn
laugardagur, október 30
  Idol
Seinheppnin eltir mig.
Í gær var Idol-kvöld hjá fjölskyldunni. Við komum litlu greyjunum í rúmið og settumst með kók og djús í sófann og settum spólu með Idolinu sem mamma hafði tekið upp fyrir okkur. Þetta var fínt kvöld og við skemmtum okkur vel yfir Idol en það var gremjulegt að slökkva á vídeóinu og fá bara óruglaða Stöð 2 á skjáinn! Við höfðum greinilega misst af nýju og fersku Idoli í hreinni útsendingu!

Heiðrún skrifaði um að Bolvíkingar hefðu ekki staðið sig vel (kannski álíka vel og Máni Atlason frá Akranesi sem var í Idol fyrr í haust og gerði helv... gott grín). Baldur svarar og á hans orðum má skilja að allir verstu þátttakendurnir hafi verið klipptir saman og sagt að þetta væru Bolvíkingarnir. Ég veit ekki hvort Simmi og Jói eru svona fyndnir eða hvort Baldur tekur þetta svona nærri sér og er að reyna að afsaka fulltrúa okkar Víkaranna. Ég segi nú bara: Ef Biggi Olgeirs hefur tekið þátt og gert eitthvað svipað því sem hann gerði í framhaldsskólakeppninni í fyrra þá mega þeir passa sig þarna fyrir sunnan!

Bolvíkingar eru alltaf í fremstu röð......... ... í öllu!
 
föstudagur, október 29
  Fuβball
Nú er búið að ganga þannig frá málum að við getum horft á Rúv, S1, St.2 & Sýn. Reyndar erum við ekki áskrifendur áskrifarstöðvanna en maður sér þá alla vega Silfrið og Fréttirnar á St. 2. En það dýrðlegasta er samt að geta séð einn og einn fótboltaleik! Gloria!
 
  linkað
Mér finnst svo leiðinlegt að kunna ekki að setja linka inn á bloggið. Stundum birtist þetta barasta á síðunni en það er alveg hætt að gerast. Getur einhver hjálpað mér við þetta?
 
  Myndir af börnunum
Dóra systir segist vera búin að setja myndir af krökkunum á vef dóttur sinnar. Slóðin er: http://www.barnaland.is/barn/5976/album/

Takk Halldóra min!
 
fimmtudagur, október 28
  Hressist
Ég fór með Hring niður í Laugarás að hitta lækni á mánudag og læknirinn sendi mig í apótekið (til Þrúðu konu Hallgríms frænda míns). Í apótekinu fékk ég lyf til að sprauta upp í guttann, dropa til að setja í eyrun og dropa í nefið og heima átti ég stíla í rassinn. Ég ætla rétt að vona að þetta dugi til að hressa Ringó við!

Jú jú hann er allur að braggast.
 
miðvikudagur, október 27
  Vafrað
Ég hef ekki komist inn á nokkra síðu hjá blogspot í dag og ekki á bloggerinn minn heldur.

Hefðbundinn rúntur er:
Tilraunavefurinn minn að tékka á comments
Vefur Kennarasambandsins
bb.is
vikari.is
Baldur Smári
Kristján Jóns
fotbolti.net

Stundum:
Blogger.com/home, Heimabankinn, bt.dk, Tónlistarsíða Grundaskóla, mugison.com, valur.is, ia.is/kia, mbl.is, blaskogabyggd.is, akranes.is, samband.is, snerpa.is, Textasíða Jómma Kjartans, makki.is, apple.com, jon.is, orri.org, blogg Heiðrúnar Hámundar, selurinn.blogspot.com, Andrea systurdóttir mín, fundargerðir frá Bolungavíkurkaupstað og tónlistarsíður út um allt - í dag var ég að kynna mér norska vísnasöngvarann Odd Nordstoga.
 
mánudagur, október 25
  Obb bobb bobb
Til stendur að að ég fari, í félagi við tvo gamla skólabræður, sem nú eru búsettir á Flúðum, að spila og syngja á skemmtunum hérna í sveitinni. Og Unnsteini (frá Stykkishólmi - var á vistinni á Skaganum) finnst að hljómsveitin eigi að heita Obb bobb bobb. Það eru svo langar leiðslurnar í mér að ég fattaði ekki hvað hann var að fara með þessu fyrr en löngu seinna. Ég hélt að þetta væri vísun í ráðherrann á Selfossi, en átta mig nú á að úr því að ég var í hljómsveit sem heitir Abbababb þá gæti ég eins verið í hljómsveitinni Obb bobb bobb.

Hvað næst?
 
  Hobby
Þótt ég hafi svo sem haft í nógu að snúast síðustu vikurnar fer ekki hjá því að meiri tími hafi gefist til að sinna áhugamálunum en oft áður. Ég er nú í verkfalli. Ég hef hlustað á tónlist. Það er langt síðan ég hef gert annað eins af því og núna. Og svo spila ég á gítarinn (var næstum búinn að gleyma hverng það er gert). Það sem ég hef mest hlustað á er Damien Rice, CD Nærlífi með Spilverkinu og Reggíhljómsveitin Hjálmar. Þetta er allt mjög áhugavert. Og svo hef ég verið að spila og er að rembast við að læra utanað gömlu lögin með Mannakornum. Flottar lagasmíðar hjá Magnúsi.
 
sunnudagur, október 24
  Hiti, NASA og Daði
Hringur er búinn að vera með hita síðasta sólarhring. Strákgreyið vill bara kúra og sefur laust. Þetta hefur ekki oft komið fyrir hjá honum. Við héldum að þetta væri eitthvað í tengslum við tanntöku, en vitum ekki alveg hvort það geti verið að þetta hár hiti fylgi henni. Eru það ekki bara einhverjar kommur? Það glamrar alla vega ekki enn í gómnum á honum þegar teskeiðinni er stungið upp í hann!

Hvernig ætli hafi tekist til hjá Mugison á NASA? Ætli PapaMug hafi tekið lagið með honum? Sá þetta einhver?

Daði fór heim í dag. Foreldrar hans sóttu hann. Það var mjög skemmtilegt fyrir okkur öll að fá hann í heimsókn til okkar. Þeir hafa haft það verulega gott saman vinirnir. Það var gaman í gær þegar ég spilaði við þá Gettu betur. Þeir voru barasta mjög duglegir.
 
föstudagur, október 22
  Idask
Örn Elías Guðmundsson, frændi minn, var í viðtali í útvarpinu áðan. Hann er alltaf skemmtilegur. Hann spilaði og söng og svaraði spurningum Guðna Más um tónlistina. Það sem mér þótti skemmtilegast var þegar hann taldi upp hverjir myndu troða upp með sér á Icelandic Airwaves hátíðinni. Þá nefndi hann m.a. að pabbi hans kæmi til með að syngja og svo hélt hann að hann væri búinn að nuða nóg í Röggu Gísla til að hún tæki með sér lagið. Ég hef efasemdir um að það hafi þurft að nuða í PapaMug.

Nú er Geir Harðarson í útvarpinu. Ég væri til í að eignast plötuna hans. Geri sennilega eitthvað í því fljótlega. Svo hef ég heyrt að hann ætli að fara stras í aðra plötu - krafur í kallinum.
 
  Sveitó
Á Borg í Grímsnesi, hérna í næsta nágrenni við okkur, er búið að boða til sviðaveislu 13. nóvember nk. Þá verður boðið upp á svið, rófustöppu og kartöflumús og á eftir kemur Jón Ólafsson og heldur tónleika. Um pantanir sér Hörður í Haga og á auglýsingunni gefur hann upp gemsanúmerið. Ég sé alveg fyrir mér aðstæðurnar þann 12. þegar hringt verður í Hödda þar sem hann verður á dráttavélinni að dreifa skít á engjunum og hann hefur ekki við að punkta hjá sér pantanir í rauða vasabók sem hann geymir í skyrtuvasanum. Þess má geta að Hörður í Haga kemur hingað upp eftir tvisvar í viku og spilar með okkur fótbolta. Hann er líflegur á vellinum og á til að fagna mörkunum þegar hann skorar. Þetta er sveitin!
 
fimmtudagur, október 21
  Síminn
Þá er síminn orðinn tengdur. Númer er eftir sem áður 431 3488.

Við Hákon erum að spá í að sækja Daða Jóhannesson upp á Akranes. Daði hefur verið besti vinur Hákonar frá því við fluttum í Bræðraborg fyrir 3 árum síðan. Hákon hefur saknað vinar síns - það hefur verið það eina erfiða fyrir hann við að flytja í sveitina. Þá er bara að vona að Daði eigi heimangengt!

Bless í bili
 
laugardagur, október 16
  Á skólalóðinni
Ég er prinsippmaður.
Ég fer ekki inn í skólann í verkfallinu, jafnvel þótt öllum væri sjálfsagt alveg sama um það.
Nú stendur þannig á hjá mér að símamennirnir eru ekki búnir ða koma og tengja símann þannig að ég geti notað hann heima hjá mér í nýju íbúðinni. Til að sækja póstinn og blogga pínupons er ég kominn á skólalóðina til að ná mér í samband úr þráðlausa netinu í skólanum. Svolítill rebell núna, og svo mikill prinsippmaður!
 
miðvikudagur, október 13
  Spá
Ísland 1
Svíðþjóð 3

Því miður.

Vilja fleiri spá?
 
  Nýtt tímatal
Nýtt tímatal hefur verið tekið upp í Biskupstungunum. Það er þannig tilkomið að sveitarstjórinn í Bláskógabyggð lofaði því síðastlíðið vor að ég og fjölskylda mín gæti flutt í sveitarfélagið og beint inn í nýja íbúð sem þá var í smíðum. Dagsetningin sem talað var um var 23. júlí.

Það var í gær.
 
þriðjudagur, október 12
  Geirfuglarnir
Geirfuglarnir er frábær hljómsveit. Ég á góðan slatta af músík með þeim. Fór ekki að hlusta á þá fyrr en Venni félagi minn að vestan fór að spila með þeim. Ég man eftir að hafa heyrt hann mæra þessa drengi og fyrstu breiðskífuna þeirra en ég fattaði ekki hvað honum fannst skemmtilegt við þetta. Með hann innanborðs kom ein plata. Hún er mjög skemmtileg.

Geirfuglarnir blanda saman gríni og alvöru. En þeir eru samt alltaf fyndnir á einhvern hátt. Þegar textarnir eru ekki sniðugir þá er lagið bara sniðugt eða eitthvað í útsetningu þess.

Að fara á ball með þeim til að dansa er meiriháttar: Polkar, rælar, skottísar og valsar í lange baner. Í Geirfuglunum eru ekki bara æringjar heldur hljóðfæraleikarar í fremstu röð, s.s. Freyr Eyjólfsson mandólínleikari og gítarleikarinn Stefán Már Magnússon, sem á plötunum leikur á gítar, bassa, mandólín, trommur, píanó, munnhörpu og að mínu áliti syngur hann þar að auki best þeirra Geirfugla. Stefán Már er jafnframt einn fremsti laga- og textahöfundur í íslensku poppi og rokki í dag. Hann semur svo sem ekki mikið, en sum lögin og textarnir eftir hann með hljómsveitunum Geirfuglunum og Miðnesi eru perlur.
 
mánudagur, október 11
  Breiðbandið
Breiðbandið er tríó úr Keflavík. Það er bara grínhljómsveit. Ég á líka plötuna þeirra. Þeir eru nokkuð skemmtilegir. Mjög fyndnir. Þroskaðra band en menntaskólaböndin (eins og t.d. eitt sem ég var í) en annars sams konar húmor. Kynningar á milli laganna eru svona bland af spontant djóki á milli þeirra sem á standa á sviðinu og öðru sem er fyrirfram ákveðið að koma eigi fram. Þeir eru mátulega hallærislegir og eðlilegir til að maður hafi gaman af þeim. Sérstaklega hef ég gaman af laginu þeirra: Hvað er það við jólin?
 
  Hundur í óskilum
Hundur í óskilum er gamall dúett að Norðan. Þar eru á ferðinni tveir miðaldra barnaskólakennarar. Annar þeirra syngur líka með Tjarnarkvardettnum. Hann er tónmenntakennari og grallari, ég man eftir því í Kennaraskólakórnum, einhverju sinni þegar kórstjórinn talaði um liðna tíð, að hafa heyrt þann mann nefndan Hjöra fjöra. Hundurinn er nú talsvert þekkt fyrirbæri. Þeir eru báðir hæfir tónlistarmenn og það heyrist glöggt á flutningi þeirra að þeir eru öryggir söngmenn. Ég fíla þá ágætlega. Myndi alla vega alveg vilja sjá þá á sviði.
 
  Hvanndalsbræður
Hvanndalsbræður er tríó. Það eru menn búsettir á Akureyri. Venni vinur tók upp plötu með þeim vestur í Súgandafirði í fyrra og sendi mér eintak. Mér finnst sú plata ekkert sniðug og bara leiðinleg. En svo heyrði ég lög af nýrri plötu með þeim í sumar og það hljómaði skár. En þetta er svolítið þreyttur brandari. Aðaldriffjöður þessa tríós er Rögnvaldur gáfaði. Hann hafði áður verið í dægurlagapönksveitinni Húfu. Hvanndalshúmorinn er eins og Húfuhúmorinn - sami brandarinn aftur og aftur. Annars skilst mér að þessi náungi sé agalega fyndinn og sniðugur.
 
sunnudagur, október 10
  Spaðar
Hinir ástsælu Spaðar hafa verið í uppáhaldi hjá mér um nokkurt skeið. Fyrir nokkrum árum keypti ég plötuna þeirra Ær og kýr og hef hlustað mikið á hana. Spaðarnir eru hobbýhljóðfæraleikarar og það heyrist alveg. Þeir hafa greinilega gaman af því að spila saman tónlist og gera lög og textarnir þeirra eru margir mjög vel ortir, oft fyndnir og túlkun er nokkuð sem vantar aldrei í sönginn hjá þeim. Ég á tvær nýjar plötur með þeim. Önnur þeirra er samansafn, einhverskonar Best of. Flott hljómsveit.
 
laugardagur, október 9
  Túpilakar
Túpilakar er hljómsveit sem er annað hvort frá Húsavík eða Mývatnssveit. Sveitin sendi frá sér plötu sem ég á og hef mjög gaman af. Lögin er einföld og skemmtileg og textarnir með broddi en þó um leið fyndnir og skemmtilegir. Kannski eins og bland af Þokkabót, Bjartmari og Valgeiri Guðjóns. Þetta er það sem mér finnst skemmtilegast af þessu sem ég hef eignast af grínmúsík hin síðari ár.

Ég veit ekkert um það hvaða hljómlistarmenn standa að þessari hljómsveit en þeir eru hæfir spilarar, ágætir söngvarar en umfram allt miklir og góðir textagerðarmenn. Kannski einhver lesandi geti frætt mig um þetta band?
 
  Spé og spilerí
Ég er hrifinn af því þegar tónlist og gríni er blandað saman. Þetta hefur alla tíð fallið mér í geð. Þegar ég var púki eignaðist ég t.a.m. langflestar Laddaplöturnar og fíla mörg lögin hans Ladda enn þann dag í dag. Ég hlustaði meira að segja á tónleikaplötu Ríó tríós sem var til á heimilinu. O.K Ríó tríó er ekki fyndið - en kynningarnar hjá þeim voru í það minnsta tilraun til skemmtunar og fólkið í Háskólabíóinu hló.

Seinna fór ég svo að hlusta á Bítlavinafélagið, Sverri Stormsker og Bjartmar og fannst þetta allt mjög skemmtilegt. Lög eins og Rúllukragapeysan með Bítlavinum eru enn í uppáhaldi hjá mér. Og svo fór ég náttúrulega að gera út á svona lagað þegar ég fór sjálfur að skemmta með söng og gítarslætti fyrir vestan og geri svo sem enn endrum og sinnum.

Þessi formáli er hér vegna þess að næsta verkefni sem ég ætla að ráðast í (nógur er tíminn í þessu andsk.... verkfalli) hérna á Tilraunavefnum er yfirlit um það sem er nýjast í þessum geira tónlistar í plötusafninu mínu. Fyrsta færsla verður birt síðar í dag.

 
fimmtudagur, október 7
  Bassinn
Eftir að ég eignaðist góða tölvu, fyrst gömlu tölvuna og svo þessa nýju, hef ég hlustað meira á tónlist en ég hef gert mjög lengi. Þetta er svo handhægt og þægilegt að geyma tónlistina inni í tölvunni. En ef hátalarar tölvunnar eru látnir duga fer maður á mis við það allra skemmtilegasta í lögunum, þ.e. bassalínurnar. En núna er ég farinn að nota góðan headphone. Þetta er algjör draumur. í kvöld er bassinn eins og ný uppgötvun í mínum eyrum!

Nú er Jakob Smári að spila í lagi eftir Orra Harðar, á undan var það Tommi Tomm í lagi af Fingraförum með Bubba og á undan því Hilmar í Þey og Sigtryggur á bassatrommunni í laginu Rúdólf, Halli Þorsteins í Brimkló í laginu Herbergið mitt, Egill á kontrann af Götuskólm Spilverksins......
 
  Bjúgu
Hver étur bjúgu nú til dags?

 
miðvikudagur, október 6
  Fleira en byggðaþróun
Vegna fyrri færslu um nýtt útspil Sambands íslenskra sveitarfélaga í áróðursstríðinu gegn kennarastéttinni þar sem áróðursmeistararnir slá fram hálfsögðum fréttum og veifa tölum framan í fjölmiðlana í þeim tilgangi að slá ryki í augu almennings, langar mig að bæta þessu við. Það er fengið af heimasíðu Kennarasambands Íslands, www.ki.is.

„ ..... Fjölgun stöðugilda kennara á sér ýmsar skýringar, en  fyrst og fremst á hún rætur að rekja til fjölgunar kennslustunda, nýrra námsgreina og í sumum tilvikum til aukins metnaðar einstakra sveitarfélaga.

Kennslustundum í grunnskólum hefur verið fjölgað í samræmi við kröfur grunnskólalaga og nýrrar aðalnámskrár. Þessu til viðbótar hafa ýmis sveitarfélög bætt við kennslu umfram það sem lögboðið er.

Samkvæmt ákvæðum laga um grunnskóla er grunnskólinn „skóli án aðgreiningar“ og eiga öll börn á skólaskyldualdri rétt  á að sækja nám í heimaskóla. Þetta hefur stuðlað að fjölgun kennara og annarra starfsmanna skóla. Einsetning skólanna hefur einnig leitt til þess að kennurum hefur fjölgað þegar búnar hafa verið til nýjar stöður vegna starfa sem áður voru unnin í yfirvinnu. Einnig hefur stöðugildum fjölgað vegna nýrra námsgreina í samræmi við ákvæði í aðalnámskrá.

Sú þjónusta sem grunnskólinn veitir hefur aukist mikið á undanförnum árum. Því er eðlilegt að öðru starfsfólki en kennurum hafi fjölgað mikið m.a. vegna reksturs mötuneyta, fjölgunar stuðningsfulltrúa, aukinna krafna um gæslu o.fl. "

Mér þykir jafnframt líklegt, eins og áður hefur komið fram, að byggðaþróunin hafi sitt að segja. Því það þarf álíka fjölmennt starfslið til að reka 230 nemenda skóla og 140 nemenda skóla.
 
þriðjudagur, október 5
  Nýjar fréttir af krökkunum
Hákon verður 7 ára 7. desember
Perla María varð 2 ára 3. júlí
Hringur er 6 mánaða.

Hringur er svo langur og þungur að hann slær öll met fjölskyldunnar í þeim efnum (og vorum við Hákon samt sem áður ágætlega á okkur komnir og erum enn). Þegar við fórum með hann í 6 mánaða skoðun var hann 11 1/2 kíló. Hákon var 10 mánaða þegar hann hafði náð þeirri þyngd. Það tekur í að halda á honum einhverja stund.

Perla María fer í leikskólann á hverjum degi. Hún er þar frá 8 til 13. Í gær var vettvangsferð hjá henni vegna þemaverkefnis í leikskólanum. Þemað er Skálholtskirkja.

Hákon var að lesa fyrir mig áðan. Það verður að halda sér í þjálfun. Svo var hann að reikna líka. Honum leiddist það svolítið, finnst hann alltaf vera að reikna sama dæmið. Í gær var hann að leika sér í tónlistarforriti í tölvunni minni. Hann var að semja rokklag og útsetja það sjálfur. Góður makkinn!
 
  Áróður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vinna miklir áróðursmeistarar. Þeir hafa undanfarnar vikur dregið fram í dagsljósið hinar og þessar fullyrðingar um skólastarf og kennarastéttina, þar sem aldrei er nú sögð meira en hálf sagan. Þetta á allt að vera í þeim tilgangi að gera málflutning Félags grunnskólakennara í yfirstandandi kjaradeilu tortryggilegan. Nýjasta nýtt úr áróðursdeildinni er þetta:

„Stöðugildum kennara fjölgaði um 28,3% og stöðugildum annarra starfsmanna fjölgaði um 53,4% frá árinu 1998 til ársins 2003 á sama tíma og nemendum fjölgaði einungis um 5,6%.”

Þetta hefur náttúrulega ratað í fréttatíma RÚV.

Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga, www.samband.is, er þessu bætt við: „Verður að ætla að þessi mikla fjölgun kennara og annars starfsfólks hafi haft jákvæð mótvægisáhrif vegna sívaxandi álags starfsfólks sem fyrir var í skólunum og oft hefur verið nefnt í fjölmiðlaumræðu undanfarið í tengslum við kjarabaráttu grunnskólakennar."

Já, það er alltaf að verða auðveldara og auðveldara að vera kennari, þess vegna þarf nú varla að vera að bæta kjör þeirra. Ha!

Það sem hér er ekki sagt er að augljóst samband er á milli aukningu stöðugilda og byggðarþróunar í landinu. Nemendurnir í 3. bekk í plássi á Vestfjörðum1998 þurftu einn umsjónarkennara þá þegar þeir voru 20 talsins. Þeir þurfa enn einn umsjónarkennara í 9. bekk 2004. Þá eru þeir ekki nema 14. Þetta hefur gerst í flestum byggðarlögum á landsbyggðinni. Nemendum í skólunum fækkar. Fólkinu fjölgar hins vegar á höfðuðborgarsvæðinu og þar þarf að byggja nýja skóla (ætli það sé ekki byggður nýr skóli á hverju hausti). Í þessa skóla þarf starfsfólk. Þetta segir sig náttúrulega sjálft.

En áróðursmeistararnir græða ekkert á því að segja meira en hálfan sannleikann. Þannig eru stjórnmál nútímans. Og það þarf maður að hafa í huga þegar maður tekur við upplýsingum úr fjölmiðlunum.


 
mánudagur, október 4
  Mest leikið
Í þessari nýju tölvu eru mest leiknu lögin 3 lög af frábærri plötu Damiens Rice, O.
 
  Hægt miðar lausn kjaradeilunnar
Hér gerist ekkert í húsabyggingarmálunum. Við látum fara illa um okkur innan um pappadassana.
Ætti maður að leggja land undir fót og skella sér vestur?
 
  Vöfflur
Gestirnir sem komu um helgina fengu súrmjólkurvöfflur málarans með sírópi og þeyttum rjóma. Mmmmmmm........!
 
sunnudagur, október 3
  300.000 kr.
Frændi minn í Bolungavík, mesti ágætismaður eins og hann á kyn til, heldur því fram á bloggi sínu að háskólamenntaður einstaklingur hafi 300.000 krónur í mánaðarlaun. Á verkfallsbömmernum skal ég ljóstra því upp að þrjúhundruðþúsundkallinn hefur aldrei ratað á launaseðilinn minn (þó ég hafi háskólapróf)! Ég er rétt hálfdrættingur. Hann er reyndar viðskiptafræðingur en ég grunnskólakennari. Sem er sambærilegt próf með tilliti til tíma og eininga. Þessi frændi minn var að velta því fyrir sér hvað það hefði kostað hann extra hefði hann reykt síaðn hann var 16 ára. Niðurstöðurnar eru sláandi. Ussssss!!!!

Þessi frændi minn, Baldur Smári Einarsson, er einn sárafárra ungra Bolvíkinga sem gengið hafa í Sjálfstæðisflokkinn af öðrum hvötum en þeim að hafa lyst á að fylgja fjöldanum eða einhverjum hópi fólks í blindni. Baldur helblár í gegn, alveg grjótharður frjálshyggjumaður og með öll svör á reiðu hvort sem um theoriu eða hversdagspólitík er ræða. Toppmaður. En við frændurnir erum ekki alveg á sömu línunni í þessum efnum, ekki frekar en í enska boltanum eða tónlist.

Hér er slóðin hans: www.baldur.blogspot.com
www.vikari.is

Láglaunakomminn
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]