Mynd af mér í ljótum buxum
Það er langt síðan nokkuð var síðast var skrifað hér. Tilefnið nú er minning um sumarið 1991 og hún tengist ljótum joggingbuxum.
Gréta birti mynd af mér á Facebook sem hún tók líklega sumarið 1991. Ástin blómstraði. Um mitt sumar flutti Gréta inn á heimili foreldra minna. Hún vann í frystihúsinu, ég var auðvitað í málningarvinnu. Um líkt leyti fengum við pabbi Jónas frænda til okkar í vinnu. Hann var hressandi viðbót í gengið og það var oft gaman hjá okkur. Þetta sumar spilaði ég stundum með bassaleikaranum Bjarna Ketils á barnum heima í Víkinni og á Vagninum á Flateyri og eitthvað á Ísafirði líka. Þetta gekk allt vel og lífið var dásamlegt. Eitt skyggir þó á minninguna um sumarið 1991. Það sumar var eitt þriggja vonbrigðasumra á knattspyrnuferli mínum í meistaraflokki.
Þessar buxur eru úr upphitunargalla knattspyrnuliðs Bolungavíkur 1991. Þetta var aðalbúningur okkar í varamannabekkjarráðinu sumarið 1991. Þar sátum við allir smart og í stíl frændurnir; ég, Rúnar og Jónas Pétur, með Magnúsi Pálma, Stebba og Gumma Birgis og fylgdumst með tveimur lélegum fótboltaliðum spila í roki og rigningu á malarvöllum hér og þar um landið.
Ég reyni að finna leið til að birta myndina með færslunni.