Þrjár staðreyndir um hlutdeild mína í Íslandsmeistaraliði Vals og ferli besta leikmanns deildarinnar
#1 Ég er fyrsti (mögulega annar) knattspyrnuþjálfari Andra Rúnars Bjarnasonar sem kjörinn var besti leikmaður efstu deildar karla 2017. Þegar ég sat í stjórn Knattspyrnudeildar Ungmennafélags Bolungavíkur 1998 tókst mér ekki strax að finna þjálfara fyrir yngstu iðkendurna. Það var því ekkert annað að gera en að taka þetta að mér sjálfur. Ég þjálfaði 7. flokk og 6. flokk í um það bil tvo mánuði þangað til hægðist um í frystihúsinu og Gummi Sig gat tekið við af mér.
#2 Ég var í stjórn Knattspyrnudeildar Ungmennafélags Bolungavíkur þegar Rajko Stanisic markvörður og Nenad miðherji komu til félagsins frá heimalandinu (sem mig minnir að sé Serbía). Rajko er enn á Íslandi og er markmannsþjálfari Vals.
#3 Þegar frændi minn lék með Val fór ég eitt sinn með honum heim til liðsfélaga hans til að horfa saman á fótboltalandsleik. Frændi kynnti mig og sagðist fá frá mér punkta og ráðleggingar um leik sinn sem hann hlustaði á og nýtti sér stundum. Liðsfélaginn vildi tékka á visku minni og spurði mig hvað mér þætti um framistöðu hans sjálfs á vellinum. Ég, eins óþarflega hreinskilinn eins og ég get verið, sagði honum að mér þætti hann alls ekki nægilega góður miðvörður, en það var staðan sem þjálfarinn vildi endilega að hann léki. En svo bætti ég því við að ég teldi hann eiga framtíðina fyrir sér í stöðu vinstri bakvarðar. Þar þætti mér hann virkilega góður, svo góður að hann gæti í fullri alvöru náð þeim tökum á þeirri stöðu að hann myndi komast í landsliðið. Þetta var Bjarni Ólafur Eiríksson sem skömmu síðar var orðinn vinstri bakvörður í landsliðinu og atvinnumaður í fótbolta. Bjarni Ólafur var einn albesti leikmaður Íslandsmótsins í ár.