Leikið og sungið í Laufáskirkju
Aftur lék ég og söng "Héðan í frá" í brúðkaupi í dag. Það var jafngaman og síðast. Það er góð tilfinning að sjá framan í fólk sem er greinilega að hlusta á það sem maður er að syngja fyrir það. Fólk sem virðist taka eftir hverju orði. Og fólk sem bersýnilega líkar það sem fyrir það er borið. Það er betra en hitt (hef svo sem reynt það í lífinu líka)! Nú hef ég leikið þetta alla vega í tveimur brúðkaupum og einni skírn, auk fjölda annarra skipta við hin ýmsu tækifæri.
"Héðan í frá" var síðasta lagið sem Orri Harðarson upptökustjóri valdi inn á plötuna þegar við vorum að taka hana upp. Hann lét tvö lög mæta afgangi sem við vorum að pæla í að hafa með. Annað höfðum við unnið talsvert, hitt bara aðeins fitlað við. En svo var ákveðið að reyna þetta erlenda lag sem ég hafði gert íslenskan texta við. Það gerði sig svona líka vel. Varð að titillaginu.