
Það var einu sinni á 17. júní, þegar ég var svona um það bil átta ára, að ég var staddur í lautinni sem er fyrir ofan brekkuna sem er notuð sem áhorfendastæði á íþróttavellinum á Skeiðinu. Það liggur troðinn vegarslóði upp í þessa laut og þennan dag höfðu bolvískir krakkar hjólað á hjólunum sínum alla leið upp í lautina og nokkrir hjólaeigendur voru eitthvað að spá í sjónræna þáttinn á þessum hátíðardegi og settu hjólin í standarana og höfðu röðuðu þeim þétt upp að hvert öðru, í beinni og fallegri röð. Meðan presturinn fór með bænarorðin, kirkjukórinn söng Guðvorslandsinn, fjallkonan las ljóðið, Sæsi afhenti verðlaun fyrir víðavangshlaupið og Bessi Bjarnason eða einhver annar skemmtikraftur að sunnan var eitthvað sniðugur var ég að leika mér í þessari áðurnefndu laut. Við þennan hjólastafla hitti ég Finnboga Sveinbjörns, sem þá hefur verið þetta 15 eða 16 ára. Hann stendur við annan enda þessarar reiðjólarunu og segir við mig glottandi, um leið og hann sýnir með handahreyfingu, að það yrði sniðugt og virkilega flott að sjá, ef hann ýtti aðeins á eitt hjólið því þá myndu þau öll detta hvert um annað.

Um kvöldið fer Atli bróðir að tala um það við pabba að hann hafi ekki upplifað leiðinlegri þjóðhátíðardag. Allur dagurinn hafi farið í að leita að hjólinu hans. Og honum þótti sárt að hafa eyðilagt daginn fyrir fjölskyldu Einars vinar síns, því hún hafði tekið fullan þátt í leitinni að hjólinu. Það var búið að kemba bæinn. Fyrst þorði ég nú ekkert að segja. Þeir voru örugglega ekki í stuði til að skilja að ég hafði falið hjól bróður míns til að forða því frá ægilegum skemmdarvargi. En svo gat ég ekki annað en vísað þeim á hjólið. Ég man að þeir voru ekkert ánægðir með þennan greiða sem ég taldi mig hafa gert bróður mínum.
NB. 95 ára afmæli Krjúl.
SvaraEyða