laugardagur, desember 24

Rafmagnsleysi

Á aðfangadag 1989 fór rafmagn af bænum (einu sinni sem oftar) og hljómsveitin Gröðu gítarnaglarnir sat öll við kertaljós í herberginu mínu á Holtastígnum og samdi jólalag. Textinn fjallaði um það sem var mest að plaga meðlimi þessarar hljómsveitar alla tíð, ágenga stelpu. Mamma var í eldhúsinu eitthvað að fást við mat og ég man að boðskapurinn fór ekkert sérstaklega vel í hana.

Seinna rak þessi hljómsveit gistiheimili í Reykjavík sem hýsti eingöngu veðurteppta Vestfirðinga og þar var yfirleitt fullbókað.

Gunni vinur minn á Skaganum laug því einhverju sinni að Kiddu rokk þegar þau voru í kringum fermingu að það hefði slegið út rafmagninu á heimili hans og maturinn eyðilagst. Fjölskyldan hefði haft snarl á aðfangadagskvöld. Kidda er svo góðhjörtuð, má ekkert illt sjá eða heyra, að hún var að leggja af stað til hans með nýjan jólamat þegar hann hringdi til að leiðrétta sig.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli