
Var að leita að nótum sem Gréta var búin að troða í plastpoka og svo inn í skápinn minn. Fann þær - en líka glósur frá námskeiði sem ég sótti til Bergen um árið. Þar var ég þegar páfagauknum á heimilinu fannst honum ógnað af ryksugustútnum og lagði til atlögu sem endaði með dauða hans sjálfs. Ég fékk tíðindi af atburðunum símleiðis. Sat þá á gamalli Krá í hansakaupmannshúsi ásamt Sæmundi nokkrum Helgasyni, Björgvini vini mínum og Kristínu sem var fararstjóri íslensku kennaranna á námskeiðinu. Gréta og Hákon minn skældu bæði, en Sæmundur og Bjöggi hlógu svo mikið að það lá við að kalla þyrfti á sjúkrabíl. Páfagaukurinn sem við kölluðum Kamillu, var lagður í frysti og síðar var hann fluttur til Bolungavíkur þar sem hann var grafinn. Og í glósunum leyndist kveðskapur.
Mér sýnist á þessu að ég hafi látið mér fátt um finnast. Bara notið stundarinnar þarna á kránni.
Undir mildum og notalegum áhrifunum af bergenska Hansabjórnum urðu til þessar limrur.
Ákaft í þorpsölið þyrsti
þegar ég Kamillu missti.
Í angist og sorg
í útlendri borg
þegar fuglinn var lagður í frysti.
Slíkt bögg er í Bergen til vansa
svo ég bæti á mig yndælum Hansa
og ég fíla það flott
og mér finnst það svo gott
að bráðum ég byrja að dansa.
Kalli Bretaprins gæti notað fyrri hlutann af þessum kveðskap ef Kamilla hans yfirgefur jarðlífið á undan honum. En Kamilla ykkar hvílir undir „fjallarós“ við húsgaflinn, eitthvað var verið að minnast á hana í sumar og var ég dauðhrædd um að þau systkinin græfu hana upp :)
SvaraEyða