Tilraunavefurinn
mánudagur, apríl 20
  Hugmynd
Næturvaktin
Dagvaktin
Fangafaktin (var ekki búið að gefa út að það yrði næsta sería?)

Mér þætti tilvalið að þegar Georg Bjarnfreðarson, Ólafur Ragnar og Daníel verða mættir á fangavaktina, hitti þeir þar fyrir Þór og Danna úr Lífs-myndum Þráins Bertelssonar.

Mér finnst þessi hugmynd mín ekki bara góð, heldur aldeilis brilljant! Sjáið ekki fyrir ykkur möguleikana sem handritshöfundarnir hafa í alla vega fléttur og vitleysisgang?
Þekkir ekki einhver lesenda Ragnar Bragason og getur bent honum á þennan möguleika?
 
sunnudagur, apríl 19
  KOMINN
Jæja, auðvitað er ég fyrir löngu kominn að vestan. Þetta var góð ferð. Spileríið gekk ágætlega. Engin mistök eða neitt slíkt. En það var svolítið mál, fannst mér, að lenda því hvernig ég ætlaði að ná til fólksins í salnum. Ég er vanari minni sal og meiri nálægð við áheyrendur. Það var þess vegna ekki hægt að ná til áheyrenda með sömu aðferðum og ég hef tileinkað mér. Þess vegna var ég svolítið að fylgjast með því hvernig krakkarnir í rokkhljómsveitunum gerðu þetta fyrri daginn. Mitt atriði var á dagskránni seinni tónleikadaginn. Það var ekkert atriði sem ég gat horft til og hugsað með mér: Svona ætla ég að gera þetta. Þannig að sviðsframkoman og útlit atriðsins var örugglega frekar leiðinlegt. Þar fyrir utan var ég með hljómsveit sem hafði bara einu sinni æft öll saman og á dagskránni voru lög sem ekki hafa heyrst áður. Þess vegna gat ég ekki algjörlega treyst því hljóðfæraleikararnir sem léku með mér myndu negla þetta - nema að ég léki hvern hljóm með þeim. Í raun og veru er ég enn sem komið er sá eini sem veit hvernig þessi lög eiga að hljóma.

Annars var ég ánægður með bandið. Ég vissi með flesta þeirra hvað ég myndi fá frá þeim og það stóðst algjörlega. Reyndar heyrði ég ekki neitt af því sem Davíð Þór gerði á orgelið. Það var ekki í mónótor hjá mér. En ég treysti því að það hafi verið stórgott innlegg. Það bara hlýtur að vera. Ég er fyrst og fremst þakklátur þessum mönnum að gefa mér tíma sinn við að hlusta á lögin mín, læra þau, æfa þau og spila að lokum með mér á tónleikunum.

Ég heyrði ekkert um það hvað fólki fannst um þessi lög mín eða flutninginn á þeim, ekkert annað en dæmigert kurteisispepp og þakkir. Sem er alltaf gott að fá, En strákunum í hljómsveitinni líkaði lögin og fannst gaman að spila þau. Ég vona auðvitað að bæði lögin og textarnir hafi fallið í kramið hjá einhverjum og auðvitað vonast líka ég eftir einhverri eftirspurn. Ég væri svo sannarlega til í að spila lögin mín oftar á tónleikum. Það gæti þó aldrei orðið með þessu bandi. En ég gæti útfært það alla vega. Mér finnst þetta vera góð lög og þau þurfa ekkert endilega á heilli hljómsveit að halda. Þau geta alveg komist til skila með söng og gítarundileik einu saman. Og svo gæti ég nú kannski sett saman hljómsveit sem æfði þetta vel.

Næsta músíkverkefni er ball með Bleki og byttum á miðvikudagskvöldið og svo upptökur um helgina fyrir jólaplötu sem ég og Hilmar Örn erum að hjálpa til með að gera með barnakór í Reykjavík. Svo er heilmikið um að vera hjá kirkjukórnum. Miklir tónleikar í næsta mánuði og ferðalag. Og svo er ég að fara í kórferð með öðrum kór í byrjun júní. Nóg að gera.
 
fimmtudagur, apríl 9
  Pakkað í tösku
Jæja, spariskórnir glansa. Jakkafötin á leið ofan í tösku. Búið að finna til sokka og brækur, kuldaskó og skyrtur til skiptanna. Nýir strengir komnir í gítargarminn, nýtt batterí komið á sinn stað, textamappan farin ofan í tösku með munnhörpum, i-pod, myndavél og zoom. Ég flýg til Reykjavíkur og svo til Ísafjarðar seinna í dag. Matur hjá mömmu og pabba. Æfing hjá Mönnunum í kvöld. Ég ætla svo að njóta tónleikanna á morgun og hinn. Ég mun svo spila á laugardaginn. Er orðinn fullur tilhlökkunar. Það er gaman þegar lögin manns lifna svona við í flutningi hljómsveitar og ég er viss um að ég nýt þess að flytja þau með bandinu. Vona innilega að fólk gefi þessu efni gaum og vonandi líkar það einhverjum vel.

Sjáumst í Víkinni eða á Ísó.
Bless í bili.
 
miðvikudagur, apríl 8
  Enn úr söngbókinni
Svolítið þungt og alvarlegt kvæði. Það verður ekki flutt á rokkhátíðinni.

Ég samdi þetta ljóð utan um þessa línu sem er þarna í ljóðinu, um að sviti þinn í holdi mínu svíði. Mér fannst þetta svo flott lína. Hún er úr ljóði sem ég átti í einhverri bók sem ég keypti mér með ljóðaþýðingum úr pólskri nútímaljóðlist. Þetta var þegar ég var 21 árs fyrsta árs nemi í Kennaraháskólanum. Þegar ég fór að gramsa eftir frumsamda efninu mínu fann ég þetta kvæði en mundi ekki alveg hvernig lagið hafði verið svo ég samdi bara nýtt lag sem þó er byggt á þeim brotum sem ég þó mundi úr þessu gamla lagi. Textinn er alveg óbreyttur. Reyndar setti ég nýjan titil á kvæðið. Svona er þetta:


Svik
(1995 & 2009) Lag & texti: Karl Hallgrímsson

draumar mínir sofa í arineldi
augu logans svíða hugrekkið
og vonirnar sem virtust taka flugið
vængstífðar nú kyssa malbikið

blóði drifin blóm
bardagi um þig
af þeim drýpur morgunsól
og syndirnar sefa
og syndirnar sefa
sýn þína á mig

augnabliki síðar sofnar ljósið
sannleiknum ég gleymi í brýnni neyð
og er sviti þinn í holdi mínu svíður
svík ég þig en blygðast mín um leið

blóði drifin blóm
bardagi um þig
af þeim drýpur morgunsól
og syndirnar sefa
og syndirnar sefa
sýnina á mig
 
þriðjudagur, apríl 7
  Úr söngbókinni
Þessi tilfinning
(1994) Lag & texti: Karl Hallgrímsson

söknuð minn og sorg
sjálfur ber á torg
þar í þéttri borg
er þessi tilfinning
engan gefur grið
grætur ástandið
seint hún finnur frið
- þessi tilfinning

býr í hjörtum ótal elskenda
sem vita að ástin
verður ástand
- ekki tilfinning

Lifði lengi og dó
í lífsins ólgusjó
var þreytt og þótti nóg
- þessi tilfinning
grimm á svip og grá
geym´ana augun blá
var lengi að líða hjá
- þessi tilfinning

býr í hjörtum ótal elskenda
sem vita að ástin
verður ástand
- ekki tilfinning

þessi tilfinning
 
mánudagur, apríl 6
  Úr söngbókinni
Á hjartalaga torgi
(1995) Lag & texti: Karl Hallgrímsson

þú kannt þér ei læti
er stígurðu fæti
í fögnuð á hjartalaga torgi
og við hvern þinn fingur
þú leikur og syngur
en söngur þinn líkist helst orgi

þú grætur víst ástir
og glataða auði
en ótti við lífið
er kvalafullur dauði

hún hjarta þitt snerti
og takið svo herti
á torgi með lögun þíns hjarta
svo bjó hún um sárin
og þerraði tárin
sem aleinni minningu skarta

þú grætur enn ástir
og glataða auði
ótti við lífið
er kvalafullur dauði

tárin tala fyrir þig
tíminn dýpkar manvitið


Uppgjöf
(1995) Lag: Karl Hallgrímsson – texti: Karl Hallgrímsson & Björgvin Ívar


blasir við steingrá stórbygging
stafar nýaldarsjarma
lýsir upp nóttina og nýtur sín
í neonljósabjarma

fægðir kirkjunnar fulltrúar
færa hórunum rósir
falla í galeyðu gleymskunnar
grýta syndugar rósir

hættur að trúa á tækifærin
hættur að trúa því sem ég vil
trúi ekki lengur á lífið
- guð er ekki til

reykmökkinn vaða á vegum guðs
villtir á svörtum regnbogum
vita að bækur sem boða trú
brenna í vítislogum

hættur að trúa á tækifærin
hættur að trúa því sem ég vil
trúi ekki lengur á líf eftir dauðann
- guð er ekki til

ekki er ég sá eini
sem engu getur breytt
ég bænum mínum beini
út í buskann yfirleitt
 
  Mennirnir
Uppáhaldsgítarleikarinn minn er Venni. Það er svo gaman að spila með honum. Það er allt löðrandi í músík sem hann gerir á hljóðfæri. Sumt tónlistarfólk sem ég hef kynnst í gegnum tíðina hefur einhverja útskýranlega hæfileika til að heyra og skilja músík og það kann að nýta sér þetta til að láta tónlistina hljóma einfalda, áhugaverða og um fram allt skemmtilega. Venni er einn af þessum tónlistarmönnum. Þegar ég kem í heimsókn vestur tékka ég alltaf á því hvort Venni verði einvhers staðar að spila. Annað hvort til að koma og sjá og heyra eða til að slást í lið með honum og taka með honum lagið. Þegar ég var unglingur vissi ég af honum í Hnífsdal en við kynntumst ekki fyrr en eitt sumarið að hann hringdi í mig og bauð mér í partí heim til sín. Hann hafði þá verið að æfa sig á kontrabassa og vantaði einhvern til að leiða geimið með gítarspili og söng. Svo vorum við samferða í rútu á útihátíð í Húnaveri. Þá spiluðum við nú eitthvað saman í rútunni. Ég man ekki hvort það var fyrir eða eftir þetta partí í Hnífsdal. Seinna stofnuðum við rokkhljómsveitina KY og höfum svo oft spilað saman, bæði tveir og í félagsskap við aðra spilara.

Davíð Þór kynntist ég lítillega einhverntíma þegar ég var í Fjölbraut á Akranesi og hann enn í grunnskóla. Hann kom svo vestur með hljómsveitinni Soul deluxe um páskana ´94 með skólabækurnar í tösku og átti að læra fyrir samræmdu prófin. Þá kom hann í partí til okkar Grétu þar sem við bjuggum í blokkinni við Þjóðólfsveginn. Hann var svo ungur og saklaus og Þorbergur Viðars passaði upp á hann og studdi hann þessi fyrstu skref á rokkbrautinni hálu. Þetta var engin smáferð. Það snóaði og snjóaði marga daga í röð og hljómsveitin komst ekki suður aftur fyrr en seint og um síðir. Seinna spilaði ég með Davíð Þór á nokkrum tónleikum með hljómsveitinni Abbababb. Þegar ég var í Kennó fór ég iðulega eina til tvær ferðir upp á Skaga til að spila á tónleikum með Abbababb. Þá var Davíð genginn í þann vafasama félagsskap. Hann var okkur mikill liðsstyrkur. Hann var svo með okkur á plötunni okkar og í vinnunni við upptöku hennar tókst með okkur ágætis kunningsskapur sem hefur haldið síðan. Mér þykir mjög vænt um að hann ætli að vera með mér á rokkhátíðinni.

Geira þekki ég ekki neitt. Öddi frændi benti mér bara á hann. Sagði mér að hann væri athyglisverður gítarleikari sem ég ætti endilega að reyna að fá í bandið þegar ég var að byrja á að smala henni saman. En Geiri fær ekki að spila á gítar í þessari hljómsveit í þetta skiptið. Ég hafði alltaf hugsað mér annan mann í það. Geiri er um þessar mundir bassaleikari í Reykjavík!. Hann leikur líka á bassa með Mönnunum.

Kristjáni Frey kynntist ég í gegnum Venna þegar þeir unnu saman í hljómplötuversluninni Hljómum inni í Ljóni. Ég hafði verið í hljómsveit í stutta stund með nokkrum vina hans fáeinum árum áður. Síðan hitti ég Krisján voðalega lítið í nokkur ár. Hann var trommari í hljómsveitinni Miðnesi. Ég hafði leyst af í Miðnesi hálft ball einu sinni á Mánakaffi og einu sinni eða tvisvar komið fram sem gestur meðan það band var ballhljómsveit á Ísafirði. Það er það eina sem við höfðum spilað saman þangað til ég fékk hann til að koma og tromma hjá mér þar sem ég hafði ráðið mig til að spila undir dansi. Það gekk svo vel að ég hef oft síðan kallað hann í svoleiðis verkefni. Við Kristján Freyr höfum átt mjög gott með að vinna saman í ballmennskunni og hann var sá fyrsti sem ég réð í Mennina.
 
laugardagur, apríl 4
  R
Hringur Karlsson er nýorðinn 5 ára. Hann hefur ekki getað sagt r-hljóðið þar til nýlega. Nú segir hann helst ekkert annað. Hann er svo stoltur af þessu nýja hljóði að öll lög sem hann raular (og hann er síraulandi) eru rauluð á err-i. Það er ekkert la la la eða ba ba ba eða je je je, bara err.
 
föstudagur, apríl 3
  Úr textasafninu

/>Leit
(2008) Lag & texti: Karl Hallgrímsson


ég leitað lengi hef
að lífsins tilgangi
og reynt að ramba á
hið rétta svar, en þá
stundinni ekki lengur nokkurt man
líkt hendir varla nokkurn alsgáðan

hef reyndar efast um
allt sem fundið hef
um leið og lausnir fást
aðrar yfirsjást
stundinni ekki lengur nokkurt veit
stefni aftur út í tilgangsleit

nóttin bjarta leiðir mig og lokkar niður að strönd
lamar frið úr hjarta og ruglar huga minn
napur kuldi sólarlagsins leggst á styrka hönd
laumulegan glundroða í kinnum mínum finn

og eftir langa leit
að lífsins tilgangi
er næstum engu nær
svörum flestum fjær
og stundinni ekki lengur nokkurt skil
nema ef tilgangurinn sé að vera til
 
  Hljómsveitin


Búið að hanna lógó.
Allt að verða klárt.
Bara eftir að æfa með öllu bandinu. Það verður gert fyrir vestan.
Við munum spila á Aldrei fór ég suður á Ísafirði laugardaginn 11. apríl.
 
fimmtudagur, apríl 2
  Hver er Víkarinn? (þriðja vísbending)
Kemur það einhverjum á sporið, að hljómsveitaræfingin þar sem þessi Bolvíkingur var svo óspar á góðu ráðin, var haldin á sunnudagskvöldi um helgina sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund í Reykjavík?

Það er sjálfsagt líka fólgin í því vísbending að taka það fram að æfingarhúsnæði þetta er við Smiðjustíg, eins og Grand Rokk.

Svo kann það líka að vera vísbending að Víkari þessi óskaði sérstaklega eftir því að fá að vera Víkarinn í Hver er Víkarinn?. Hann lítur sjálfsagt ekki á sjálfan sig sem Víkara. En það er hann ótvírætt.

Ég held að gamlir brottfluttir Bolvíkingar eigi ekki séns í þetta skiptið.

Hver er Víkarinn?
 
  Hver er Víkarinn? (Önnur vísbending)
Þessi Víkari, sem leikstýrir óumbeðinn atriðinu mínu á rokkhátíðinni eftir 9 daga, er búsettur í Bolungavík.
Hann hefur starfað í byggingariðnaði.
Hann hefur búið í útlöndum.
Hann tengist, reyndar með mjög óverulegum og langsóttum hætti, þeim Víkara sem ég spurði um síðast. Þau tengsl eru ekki einu sinni ættartengsl.
 
miðvikudagur, apríl 1
  Hver er Víkarinn?
Þennan Víkara hitti ég þar sem ég var á hljómsveitaræfingunni í Reykjavík á sunnudagskvöldið. Við æfðum í húsnæði þar sem nokkrir listamenn hafa vinnuaðstöðu. Hljómsveitir niðri, hönnuðir uppi. Þangað átti hann sem sagt erindi. Hann gaf sér tíma til að hlusta á nokkur lög og var óspar á holl og góð ráð varðandi raddbeitingu og sviðsframkomu. Kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Við höfum lítið haft saman að sælda í gegnum tíðina. En einhverntíma lágu leiðir okkar þó saman í frístundaiðju. Hann gat verið hinn mesti gleðigjafi og sprelligosi er hann sjálfsagt enn.

Hver er Víkarinn?
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]