Tilraunavefurinn
sunnudagur, apríl 29
  Reglan
Reglan um hvenær maðr er í vík og hvenær maður er á vík er ekki beinlínis málfræðiregla heldur þarf að þekkja sig svolítið í landafræði Íslands til að beita henni. Fyrir fáeinum árum var þetta sýnt á korti í einhverju dagblaðanna. Þannig er að frá Vík í Mýrdal og vestur eftir suðurstöndinni og svo norður vesturströndina er talað um að vera í vík. Þannig er sagt í Vík, í Grindavík, í Keflavík, í Njarðvík, í Reykjavík, í Ólafsvík og í Bolungavík. En þegar komið er til Hólmavíkur breytist þetta og þá er talað um að vera á Hólmavík, á Grenivík, á Dalvík, á Húsavík og á Breiðdalsvík.
Sem sagt: Suður- og Vesturland = í og Norður- og Austurland = á.

Góðar stundir.
 
laugardagur, apríl 28
  Notkun forsetninga
Mér þykir auglýsingin í sjónvarpinu þar sem Pétur Jóhann Sigfússon fer að spyrja fullorðnu konuna sem situr við hliðina á honum í flugvél um það hvert hún sé að fara vera virkilega skemmtileg. „Hvaða borgar ert þú að fara til?" Hún fer að segja honum til um málfarið, bendir honum á að það sé óæskilegt að enda spurningu á forsetningu.

Það er þetta með notkun forsetninganna. Það er ekki alltaf á hreinu hvernig maður á að nota þær. Það er t.a.m. algengt að fólk tali um að það hafi verið á Bolungavík. Við Bolvíkingar erum aldrei hrifnir af því. Við viljum að fólk haldi sig í Bolungavík. Reyndar er til einföld regla um það hvaða víkur fá í og hvaða víkur fá á.

Ég þurfti einu sinni að koma þeim skilaboðum til manns sem þurfti að ná tali af Leo yfirmanni mínum í sláturhúsinu sem ég vann í þegar ég bjó úti í Dk hvar hann væri. Ég vissi að hann væri á fundi, svo ég sagði það bara: „Han er på møde." En þá var hlegið að mér og ég man að einn sem heyrði þetta, Henrik vaktstjóri, spurði mig hvort Leo sæti virkilega ofan á fundinum og lék það svo það vakti kátínu í vinnusalnum. „Han sidder i møde Karl, han sidder i møde." Það eru fleiri dæmi um að orði sem tekur með sér eina forsetningu þegar töluð er danska fylgi allt önnur forsetning í íslensku.

Perla María spyr jafnan hvort hún megi hringja við afa Halla. Ekki tala við hann eða hringja í hann, nei hún hringir við hann.
 
föstudagur, apríl 27
  Sóli og Bytturnar

Sólmundur Friðriksson heitir maður sem ég kynntist í Kennó. Við sátum þar saman í valkúrsi hjá Þórði Helgasyni sem hann kallaði Skapandi skrif. Sólmundur er ágætt ljóðskáld. Hann er líka tónlistarmaður. Ágætur hljóðfæraleikari, spilar á bassa, grípur í kassagítar og er svo flottur söngvari líka. Sólmundur var gestasöngvari hjá Bleki og byttum í síðustu viku. Hann sendi mér þessar myndir. Hér er hann að syngja eurovision-lagið okkar nýja.

Á myndinni eru Hörður Bragason á harmóníkunni, þá ég, Gunnar Þórðarson með rauða gítarinn, Sóli og Hermann með kassagítarinn þarna alveg út í enda. Þeir sem ekki sjálst á myndinni eru Hilmar sem er þarna einhverstaðar á bak við mig, Keli trommari og Örlygur sem var á hinum sviðsvængnum.
 
fimmtudagur, apríl 26
  Áhugaverður afli ur Netinu
Það leynist ýmislegt áhugavert á Internetinu.
Til dæmis þetta:
http://memory.loc.gov/afc/afccc/audio/a382/a3828a1.mp3
 
þriðjudagur, apríl 24
  Hver er Víkarinn (2. vísbending)
Það hafði komið fram að:
Umræddur Víkari er járniðnaðarmaður.
Hann er eldri en ég en yngri en Atli bróðir.
Hann notar gleraugu og hefur held ég bara alltaf gert það.
Hann hefur oft farið í göngur í Skálavík og Tungudal
Faðir hans er framsóknarmaður.

Nú bæti ég þeirri vísbendingu við að hann á fjóra bræður. Hann er í miðið. Einn bróðir hans er einu ári eldri en hann, annar bróðir hans er einu ári yngri en hann. Yngsti bróðirinn er talsvert yngri og hann þekkið þið Dagný og Dóra. Sá elsti í hópnum, hálfbróðirinn, var lítið í Víkinni. Mig minnir að hann hafi búið á Ísafirði.

Ég veit ekki betur en að sá sem hér er spurt um búi á Akranesi.
 
  2 villur
Þegar ég var í 3. bekk var í fyrsta sinn lagt fyrir mig stafsetningarpróf. Þá var Beta á Sólbergi að kenna bekknum mínum. Stofan okkar var endastofan á miðhæðinni. Ég man það eins og gerst hefði í gær að ég fékk tvær villur. Ég skrifaði þaug í stað þau og auðvitað skrifaði ég karl með stórum upphafsstaf. Nema hvað!
 
mánudagur, apríl 23
  Heimsókn að vestan

Jafnvægislistir
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Foreldrar mínir heimsóttu okkur í sveitina á laugardaginn. Þá var tekinn uppsveitarúntur. Við fórum í Hreppinn þar sem foreldrar föður míns bjuggu nú í eitt ár, reyndar fyrir fæðingu hans. Þar reyndi mamma sig í þeirri gömlu íþrótt jafnvægisgangur á girðingarborði. Hún hafði engu gleymt.

Það er alltaf gaman þegar þau koma. Þau eiga alveg einstakt samband við börnin okkar sem mér þykir mikils virði að þau fái að rækta. Krökkunum þykir sérstaklega vænt um afa og ömmu í Bolungavík.
 
  Á Flúðum

Á Flúðum
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Nýjar myndir komnar á myndasíðuna.
 
  Hver er Víkarinn?
Ég hitti sem sagt tvo Bolvíkinga þarna á Flúðum á laugardagskvöldið. Hér er um að ræða mann og konu. Ég efast um að þau þekkist nokkuð að ráði. Það er 12 ára aldursmunur á þeim. Hann er eilítið eldri en ég sjálfur, hún er talsvert yngri. Hún er fyrrverandi nemandi minn, úr fyrsta árgangnum sem ég kenndi íslensku í 10. bekk. Þau eiga það sameiginlegt að hafa oft farið í göngur í Tungudal, Hliðardal og Skálavík. Þau eiga það líka sameiginlegt, og nú þrengist heldur betur hringurinn, að feður þeirra beggja eru framsóknarmenn og hafa tekið þátt í starfi framsóknarfélagsins í Víkinni.

Hvert er fólkið?
 
sunnudagur, apríl 22
  Útlaginn
Það er nótt. Ég var að koma heim. Ég var að spila á Flúðum, fyrst á Hótelinu og svo strax á eftir á Útlaganum. Það er langt síðan ég hef tekið svona gigg. Þarna var talsverð ölvun og fólk dansaði eiginlega allan tímann. Þetta var eins og þegar ég var að spila á Vagninum í gamla daga. Mikið stuð. Þetta eru erfiðustu giggin. Það er ekki flókið hvað varðar tónlistarflutninginn. Það þýðir ekkert að bjóða upp á neitt sem krefst einhverrar hlustunar. Það verður bara að spila lög sem fólk kannast við og mikið af þeim. Það má ekki stoppa, lítið spjalla og það verður að reyna að gera öllum til hæfis. Svo þarf alltaf að líta út fyrir að maður sé í miklu stuði og þyki mjög gaman að skemmta fólkinu og ræða við það af virðingu þrátt fyrir að margt af því sé blindfullt og þar af leiðandi ekkert sérstaklega skemmtilegt. En þótt þetta sé erfitt er samt gaman að glíma við þetta. Því maður þarf að beita sér og leggja sig fram til að takast vel upp. Og það er alltaf fró í því að takast að leysa erfitt verkefni. Það er aldrei hægt að notast við sömu aðferð í hvert sinn. Það þarf að lesa í hópinn og stemninguna og spila kvöldið eftir henni.

Eftir svona nótt er ég lengi að ná mér niður. Ég sofna alls ekki um leið og ég kem heim. Það er útilokað. Nú er það natmad og sturta, kannski svolítill lestur eða gláp og svo fer mig að syfja einhverntíma undir morgun.

Tveir Bolvíkingar voru að skemmta sér á Flúðum í kvöld. Ég gef ykkur vísbendingar um þá á morgun eða hinn daginn. Góða nótt.
 
föstudagur, apríl 20
  Hver er Víkarinn?
Hitti Víkara í dag.
Hann er eldri en ég, en yngstur í systkinahópi sínum.
Hann er frændi minn.
Hann er frændi margra annarra Bolvíkinga. Þeirra á meðal eru Jenný bekkjarsystir mín, Maggi og Belli og Þröstur leikstjóri Guðbjartsson.

Hver er maðurinn?
 
  Gleðilegt sumar
Á leið inn á þetta vefsvæði sem ég skrifa þessa færslu inn rakst ég á tilkynningu um að nú gæti ég orðið bloggað á hindi. Ég get því miður ekki nýtt mér þann valkost kerfisins. Annað sem ég get ekki komið hér að, ekki strax a.m.k., er mynd af mér og Gunnari Þórðarsyni með rafmagnsgítarana okkar um hálsinn á sviðinu í félagsheimilinu Aratungu. Ég gleymdi að hafa með mér myndavél. Á miðjum dansleik í fyrrakvöld var mér hugsað til ykkar, lesendur góðir, og bað gesti samkomunnar um að taka af mér myndir. Ég vona að einhver sendi mér þær og þá fáið þið að sjá. Sérstaklega verður þetta gaman fyrir ykkur vini mína af Skaganum sem aldrei hafið kunnað að meta hæfileika mína til að spila á gítar. Fyrir ykkur er þetta súrealískt.

Rætt var um uppruna orðsins rannsókn í útvarpinu í dag. Fyrri hluti þess mun vera hús, síðari hlutinn leit. Fyrstu rannsóknir fóru einungis fram í húsum, seinna fóru menna að rannsaka ýmislegt annað en hús. Svo þegar uppruninn var týndur og menn vildu vera nákvæmir þegar þeir lýstu rannsóknum sínum fóru menn að tala um að tiltekin rannsókn væri húsleit, ef hún fór fram innandyra. Skemmtilegt.
 
mánudagur, apríl 16
  Stjórnmálamenn á flugi
Það birtist um það frétt á mbl-vefnum að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði sungið Johnny Cash-lag á landsfundi flokksins.
Þegar ég sá þessa fyrirsögn mundi ég eftir því þegar ég fór sem fréttaritari heimasíðu knattspyrnufélagsins ÍA með liðinu í bikarleik til Seyðisfjarðar og sat þá í flugvélinni sem flaug með okkur til Egilstaða við hliðina á Geir Haarde. Og svona til að brjóta ísinn og við gætum farið að tala saman spurði ég hann hvort hann væri ekki alltaf að skemmta. Geir reyndist vera viðræðugóður náungi. Við spjölluðum svolítið um allt annað en stjórnmál. Svolítið um fótbolta meira að segja og Árbók Akurnesinga.

Einu sinni þegar ég var púki á ferð milli Reykjavíkur og Ísafjarðar var sessunautur minn í flugvélinni Steingrímur Hermannssson, sem þá var sjávarútvegsráðherra. Það sem mér þótti athygliverðast við manninn var að hann þekkti föðurömmu mína og sagðist nýlega hafa hitt hana þar sem hún lá á sjúkrahúsi. Hann spurði mig um heilsufar hennar. Fyrst hafði hann náttúrulega haft fyrir því að spyrja mig hverra manna ég væri. Þegar hann sofnaði, eins og menn gera oft í flugvélum, spennti hann greipar og velti þumlunum hvorum yfir hinn, ýmist áfram eða aftur á bak. Þetta hefur líklega verið árið 1982.
 
sunnudagur, apríl 15
  Hafnarfjörður
Ég fór með krakkana mína með mér til Hafnarfjarðar í gær. Þar eyddum við deginum með Halldóru systur og fjölskyldu meðan Gréta var heima í bílskúrnum að mála myndir. Atli og hans fólk kom líka við hjá Halldóru, þannig að þetta varð svona fjölskyldumót. Krökkunum þykir alltaf gaman að hittast. Þetta var maraþonheimsókn. Ég mætti svona rétt upp úr hádeginu og fór ekki fyrr en klukkan var að verða níu um kvöldið.
 
fimmtudagur, apríl 12
  Leikið með gítarhetju
Ja, ekki hefi mig grunað það á unglingsárunum, þegar ég var að æfa mig á gíarinn hennar mömmu inni í herbergi hjá mér á Holtastígnum, að þær æfingar myndu leiða til þess að seinna myndi ég verða hljóðfæraleikari í hljómsveit uppáhaldstónlistarmanns míns og 10 dögum síðar spila á gítar á dansleik með einum alþekktasta gítarleikara Íslands.

Þessi verður á sviðinu með Bleki og byttum í Aratungu síðasta vetrardag. Það er búið að æfa svolítið. Hann mætti síðast og æfði með okkur. Ég er ekki frá því að leikur minn hafi skánað til muna við þann stuðning sem hann veitti.

Þangað til næst.
Léttur í lundu!
 
þriðjudagur, apríl 10
  Æft
Þá er vika í næsta gigg. Þá verða Blek og byttur að spila á balli.
Við spilum ekki nógu oft til að sleppa við æfingar. Þar fyrir utan spilar þessi hljómsveit að nokkru leyti fyrir sama fólkið aftur og aftur. Þess vegna verðum við að æfa fyrir hvert skipti sem við spilum. Það verða alltaf að vera einhver ný lög á dagskránni. Við tókum góða æfingu um daginn. Vorum mjög duglegir. Svo á að æfa í kvöld. Það stefnir allt í að mikil gítarhetja stigi með okkur á stokk. Það verður gaman ef af því verður.
 
mánudagur, apríl 9
  Páskar með Kammerkórnum


Jæja, þessu páskafríi er þá lokið. Það verður að mæta í vinnu aftur á morgun. Það var mikið músíkserað þessa páska. Tónleikarnir í Hvalfirðinum voru stórmerkileg lífsreynsla. Þeir seinni fyrir það hvað hljómsveit og kór voru í góðu formi og skiluðu góðum flutningi. Hinir fyrri fyrir nokkuð allt annað. Þá tónleika bar Kammerkórinn uppi.

Það var alveg magnað að vera með krökkunum þennan laugardag. Kvöldið á undan voru tónleikar með þeim í Skálholtskirkju. Stórfínir tónleikar. Á laugardaginn vorum við í hljómsveitinni svo mætt á undan kórnum og vorum búin að stilla upp og koma hljóði á bandið þegar kórinn mætti. Með þeim var svo rennt í flest lögin. Þá var matur, spilaðir tónleikar, aftur matur, hvíld og loks aðrir tónleikar um kvöldið. Framkoma þessara barna var algjörlega einstök. Þau voru svo prúð og kurteis en samt svo lífsglöð og skemmtileg. Í hvíldinni skemmtu þau svo sjálfum sér og gestum hótelsins, þar sem við héldum til og fengum mat, með söng og dansi. Þetta góða form er nú alltaf á þeim í kennslustundum þegar ég er að kenna þeim. En oft er það nú líka. Og þennan dag var framkoma þeirra allra til þvílíkrar fyrirmyndar. Hvort sem krakkarnir voru í kirkjunni, á æfinugu þar sem vinna þurfti hratt og vel eða að borða á veitningastaðnum voru þeir allri sveitinni sinni til sóma. Tungnamenn geta verið stoltir af Kammerkórnum.

Myndirnar með færslunni voru teknar á laugardaginn og þær eru af krökkum úr Kammerkór Biskupstungna.
 
föstudagur, apríl 6
  Enginn svefnfriður
Það er ekki alltaf kyrrð í sveitinni.

Ég held það séu 27 íbúðir við þessar tvær götur hérna sunnanmegin í þorpinu.
Það stöðvaði samt ekki þessa menn sem dunda sér við það í bílskúr að gera við og endurbyggja bíla að fara út og prufa afrakstur vinnu næturinnar. Klukkan 5:30 í morgun, að morgni föstudagsins langa, vakna ég við að Willy´s jeppi er settur í gang með miklum látum. Það er þvílíkur hávaði í þessu tæki. Svo er ekið af stað, spyrnt eftir götunni og snarhemlað, hrópað og kallað, gefið í aftur, hemlað. Næsti ökumaður tekur við og gerir eins. Ég fer út í glugga. Þarna standa þeir úti á götunni nokkrir fullorðnir menn í bílaleik og eru að líkindum búnir að vekja allt hverfið upp af værum svefni. Þvílíkur dómgreindarskortur! Þvílíkt tillitsleysi! Hér vökuðum við Gréta bæði og Hringur litli líka. Þau sofnuðu reyndar aftur. En ekki ég. Ég gat með engu móti fest svefn eftir þessi læti. Þess vegna var ég svona duglegur að skrifa í morgun.


Í kvöld ætla ég að spila á tónleikum og strax á eftir að skemmta einn á veitingastað fram á nótt. Snemma í fyrramálið fer ég svo vestur í Hvalfjörð þar sem ég verð fyrst að æfa og svo að spila á tvennum tónleikum fram á kvöld. Ég ætla rétt að vona að mér takist að sofa eitthvað í dag!
 
  Nýja lagið með Grjóthruni
Ég er búinn að hlusta nokkrum sinnum á lagið sem ég setti link inn á hér fyrir nokkrum dögum. Lagið Eliza Wrona með hljómsveitinni Grjóthrun í Hólshreppi. Ég verð alltaf meira og meira hrifinn af þessu lagi. Sérstaklega líkar mér söngstíll Lýðs læknis, sem á einkar vel við í þessu lagi. Svo er mikið að gera hjá bassaleikaranum sem á líka vel við. En best af öllu eru tveir hljómar sem Hrólli setur í lagið með syntha og eru svo skemmtilega mikið á skjön við annað sem er að gerast í laginu. Ég bara vissi ekki að hann ætti til svona pönkaða tilburði.

Þetta er bara besta nýja íslenska lagið sem ég hef heyrt á þessu ári. Það er bara ekkert öðruvísi.
 
  Passíusálmar á morgun

Heimaverkefni
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Löng færsla um þátttöku mína í Píslarsveit Megasar

Á morgun verð ég svo enn á ný með mandólínið á tónleikum í kirkju. Þá verða tvennir tónleikar í Hallgrímskirkju í Saurbæ í Hvalfirði. Þar verðum við Svanhvít aftur saman, nú sem meðlimir í Píslarsveitinni sem leikur undir söng þessa sama unglingakórs og Megasar í flutningi nokkurra Passíusálma og þriggja veraldlegra kvæða Hallgríms Péturssonar. Þar er mandólín í veraldlega pakkanum og í sálmum 4, 15, 46 og 50. Svo leik ég á kassagítar í sálmum 1, 7, 8, 25, 31 og 34 og á munnhörpu í 1, 7, 31 og 43.

Í fyrra var lík dagskrá flutt í Reykjavík og í Skálholti. Í Skálholti lékum við fleiri sálma. Þar voru m.a. fluttir sálmur 11, Um afneitun Péturs, alveg æðislega flott Dylanlegt lag við frábært ljóð og sálmur 12, þar sem ég fékk að hamast á líflegu munnhörpusólói. Ég sakna þessara laga beggja af dagskránni núna. En það er bara hégómi í mér, ég fékk svo skemmtilegt hlutverk í þeim báðum. Í þetta skiptið munum við spila tvo sálma sem ekki voru fluttir í fyrra og eru heldur ekki á nýju tvöföldu tónleikaplötunni. Í fyrsta lagi er um ræða sálm 43. Það er 33 ára gamalt lag en þetta verður þó frumflutningur. Lagið er mjög fallegt. Það eru kínversk tónbil en írskur blær á melódíunni. Núðlur í Guinnersbjórnum. Við munum líka leika 8. sálminn. Það er rock´n roll af gamla skólanum. Það er ekki frumflutningur því það lag heyrðu þeir sem fóru á Passísálmatónleika í Austurbæjarbíói 1986.

Þegar ég fór inn í Píslarsveitina fyrst bað ég hreinlega um að fá að vera með í henni. Þá var Kammerkórinn að fara að syngja á tónleikum sem voru haldnir til að heiðra Megas sextugan. Það eru tvö ár síðan þetta var. Þá voru fluttir sálmar 15 og 46. Ég lék á mandólín í 15. sálmi en á gítar í þeim númer 46. Þá réð ég ekki við að spila 46. sálm á mandólín, en síðan hefur mér farið virkilega mikið fram og linurnar sem ég tek á mandólínið í þessu lagi núna eru með því flottara sem ég geri á tónleikunum á morgun. Þegar það var svo verið að setja saman stóru Píslarsveitina vegna tónleikanna á Vetrarhátíð í Reykjavík í fyrra var það stjórnandinn sem benti Megasi á að hann þekkti mandólínleikara sem hann grunaði að vildi gjarnan vera með í sveitinni. Það leist tónskáldinu vel á og hann mun einmitt hafa sagt að það væri svo vel viðeigandi því englarnir spiluðu bara á mandólín.

Ég var sem sagt fenginn í sveitina til að spila á mandólín. Þegar ég fékk svo nóturnar í hendurnar og fór að æfa mig heima sá ég að á nokkrum stöðum í handritinu stendur munnh., mh. og munnharpa. Þess vegna prófaði ég að setja munnhörpu í þessi lög. Mér fannst það passa lögunum vel og leyfði þeim Magnúsi og Hilmari að heyra tillögur mínar. Það var eins og Magnús hefði himin höndum tekið. Í ljós kom að hann hafði í sumum laganna hugsað sér stemningu sem er ekki ósvipuð þeirri sem við sjáum í amerískum kúrekabíómyndum þegar karlarnir sitja í hring við varðeld í eyðimörkinni og spila angurværar laglínur á munnhörpu. Og þegar honum var orðið ljóst að ég get spilað vel á munnhörpuna vildi hann nota hana enn meira.

Á tónleikum 1986 hafði hann viljað fá munnhörpu og einn úr hljómsveitinni fékkst til þess eftir einhverjar fortölur að blása fyrir hann í munnhörpu. En sá hafði lítið spilað á þetta hljóðfæri og munnhörpuleikurinn því ekki upp á marga fiska. Kannski hefur það verið þess vegna sem munnharpan hafði meira vægi en mandólínið á tónleikunum í fyrra, sérstaklega á seinni tónleikunum, þeim í Skálholti.

Núna er ég svo orðinn gítarleikari í Píslarsveitinni. En það eru nú björgunaraðgerðir. Eins og þegar hljóðfæraleikarinn úr bandinu 1986 var fenginn í að blása í munnhörpu. Lögin eru samin við skrifborð, beint á nótnablöð, tónskáldið hafði ekki hljóðfæri við höndina. Í mörgum laganna hefur Megas skrifað hljóma fyrir gítar sem er ómögulegt að spila á einn gítar, en með samvinnu tveggja gítarleikara má auðveldlega ná þeim hljómi sem skrifaður er. Þannig á til dæmis á einum stað skrifaður níundarhljómur þar sem þurfa að auki að heyrast sexund og sjöund. Kristni gítarleika tókst að finna leið til að taka grip sem náði þessu öllu, en hljómurinn varð miklu fallegri þegar ég spilaði hreina níund og hann gat tekið hljóm sem hefur bæði sexund og sjöund. Önnur ástæða fyrir því að hafa stundum tvo gítara í gangi er að við viljum njóta hæfileika Kristins gítarleikara eins og hægt er. Í sumum laganna gerum við það best með því að losa hann undan því að bera lögin uppi með kassagítarströmmi. Ef ég sé um það hefur hann meira frelsi til að spila línur sem styðja við melódíuna. Það er ekki til aur til að ráða fleiri hljóðfæraleikara í þetta skiptið.

Samsetnig Píslarsveitar þessa árs er svolítið frábrugðin þeim fyrri. Í fyrstu skiptin sem Passíusálmalög Megasar voru flutt, 1973, 1985 og 1986, var um hefðbundið rokkband að ræða. Það voru reyndar saxófónn og bakraddir 1985. 2001 var barnakór í stóru hlutverki og orgel, klarinettur og þverflauta til viðbótar við trommur, kontrabassa og tvo gítara. Í fyrra var 4 manna strengjasveit, tveir gítarar, orgel, kontrabassi, harpa, blokkflauta, kór, munnharpa og mandólín. Alveg risastórt. Núna er gítar, kontrabassi, trommur, orgel, harpa, fiðla, blokkflauta, kór og svo ég með gítar, munnhörpu og mandólín. Yfirbragðið er allt lágstemmdara en í fyrra. Það eru ekki alltaf allir að leika í einu. Það heyrist það sem verið er að leika á lágværu hljóðfærin. Áheyrendur munu koma til með að heyra hörpuna óma, dásamlega leikið á klassískan gítar, himneska og djöfullega tóna úr fiðlunni hans Hjórleifs, seiðandi altflautustef, himneskar mandólíntrillur og másandi indverkst harmoníum.

Mikið finnst mér þetta skemmtilegt.
 
  Mandólínmessa

Ég hef spilað á mandólín í kirkjum en aldrei í messu fyrr en í gær.
Þannig er að í nýju sálmabókinni eru söngvar sem ég held að séu kenndir við hérað í Frakklandi, frekar en einhvern mann, sem heitir Taizé. Það eru stutt og einföld, en ákaflega falleg lög, skrifuð þar í fjórum röddum. Ég held þau séu ekki svo gömul þessi lög. Í Skálholtskirkju syngjum við þau gjarnan á meðan altarisganga fer fram. Það var í þessum hluta messunnar sem ég spilaði mandólínlínur í gær. Er þetta ekki alveg himneskt? „Englarnir spila bara á mandólín!"

Í kvöld mun ég aftur leika á mandólínið í kirkjunni. Kammerkórinn (unglingakórinn okkar) verður með tónleika. Með honum leika organisti og hörpuleikari og í einhverjum laganna spilum við Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir með, hún á blokkflautu en ég á mandólín.
 
miðvikudagur, apríl 4
  Tónlistargetraun gærdagsins


Rétta svarið er komið en ég var búinn að hafa fyrir því að semja 3. vísbendinguna. Birti hana hér með myndunum sem ég vísaði til.

3. vísbending
Eitt af áhugasviðum hans var stærðfræði og í tónsmíðum hans gegna tölur oft mikilvægu hlutverki.

Þetta tónskáld átti það til að merkja verk sín með undirskrift líkt og málarar gera. Þá lýkur hann verkinu á nótum sem hann notar til að stafa nafn sitt. Þær liggja saman á hljómborðinu.

Hann kynntist ungur orgelsmíði. Þekkingu hans á innviðum orgelsins telja sumir vera forsendu þess hve vel honum gekk að skrifa tónlist fyrir orgel.
 
þriðjudagur, apríl 3
  Tónlistargetraun #2
Það eru þrír búnir að skjóta á svar við tónlistargetraun dagsins. Það eru allt saman góðar ágiskanir. En rétta svarið er ókomið. Því set hér inn vísbendingu númer 2.

2. vísbending
Foreldrar hans dóu báðir þegar hann var enn barn að aldri.
Sjálfur hlaut hann tónlistarmenntun á ákaflega breiðu sviði.
Einn kennara hans hét sama skírnarnafni og hann sjálfur.
 
  Sérfræðingurinn
Ég er þessa dagana að vinna með einum helsta Dylan-sérfræðingi landsins. Fyrir um það bil 15 árum gerði hann stórmerkilega útvarpsþáttaseríu um Dylan sem nýlega var endurflutt á Rás 2. Þessi sérfræðingur fer ekki á Netið þannig að mig grunaði að hann hefði ekki heyrt af Hears a Who upptökunum sem ég fjallaði aðeins um hér á dögunum. Ég gaf honum eintak af þessu og prentaði út albúmið handa honum. Sagði honum svo að ég vildi ekkert segja honum um það hvað þetta væri - við yrðum bara að ræða þetta næst þegar við hittumst þegar hann væri búinn að hlusta og stúdera upptökurnar.

Leið svo vika. Við hittumst aftur. Jú hann hafði hlustað og fundist þetta bráðskemmtilegt. En hann kannaðist ekkert við þetta efni. Fannst samt svo undarlegt að hljómsveitin hljómaði eins og Dylan á Highway 61 en söngstíllinn var eins og hann var orðinn hjá Dylan fimm árum síðar, á túr þar sem Dylan var orðinn virkilega þreyttur og það heyrist víst, eins og títt er, á raddbeitingunni. Hann kallaði til alla hina íslensku sérfræðingana í Dylan sem hann þekkti og það var mikið spáð í þetta og spekúlerað. Þeim þótti þetta víst bráðskemmtileg þraut að leysa. Sérfræðingarnir fóru svo á Netið og komust náttúrulega að hinu sanna. Þetta er nokkurskonar fölsun. En hún er skemmtileg og ofsalega vel gerð.
 
  Tónlistargetraun
Hver er tónlistarmaðurinn?

1. vísbending
Hann samdi virkilega flotta tónlist sem er vinsæl út um allan heim.

Hann dó 65 ára að aldri.

Víða á Netinu eru myndir af honum. Á sumum þeirra er hann með dökk sólgleraugu. Á einu myndinni sem ég hef ég séð hann með hljóðfæri heldur hann á rosalega flottum 6 strengja rafbassa. Bassinn var þó ekki hans aðalhljóðfæri.
 
mánudagur, apríl 2
  Af fuglum og vorkomu
Ég hef ekki séð lóu enn, en hef frétt af henni í túninu í Arnarholti. Álftirnar koma þessa dagana í stórum flokkum. Á laugardaginn var ég að aka á Skeiðunum og sá tvo álftahópa á engjum. Fuglarnir skiptu hundruðum. Þetta voru tveir risastórir hvítir flekkir af fuglum. Um nóttina vaknaði ég við mikið álftakvak. Ég fór út í dyr og lagði betur við hlustir. Það var greinilega gríðarstór hópur álfta í kvosinni niðri við Reykjavelli.

Það er tiltölulega stórt votlendissvæði hér í Tungunum. Eitthvert svæði sem hlýtur að vera samkomulag um að halda óræktuðu. Þar er kjörsvæði fyrir margar fuglategundir. Þetta er í Eystri-Tungunni, alveg við brúna við bæinn Krók. Ég man ekki hvað þessar mýrar eru kallaðar. Það er ekki nema örskotsstund verið að aka þangað héðan úr Reykholti. Þangað fór ég í morgun að svipast um eftir fuglum. Ég varð ekki var við neitt spennandi. Ekki í þetta skiptið. En í dag sá ég samt gæsahóp í Skálholti.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]